Standa þarf vörð um sjálfstæði ríkisendurskoðana

Evrópusamtök ríkisendurskoðana (EUROSAI) hvetja stjórnvöld, fjölmiðla og almenning í löndum álfunnar til að standa vörð um sjálfstæði þessara stofnana svo þær geti sinnt hlutverki sínu sem skyldi. Þetta er inntakið í meginályktun þings samtakanna sem haldið var í Lissabon, höfuðborg Portúgals, dagana 30. maí til 2. júní sl. Ríkisendurskoðandi og tveir starfsmenn stofnunarinnar sátu þingið ásamt fulltrúum frá öðrum aðildarstofnunum EUROSAI sem eru samtals 50. Einnig sóttu þingið fulltrúar frá öðrum svæðisbundnum samtökum ríkisendurskoðana, s.s. Asíusamtökum ríkisendurskoðana (ASOSAI) og samtökum ríkisendurskoðana í arabalöndunum (ARABOSAI), sem og frá Alþjóðasamtökum ríkisendurskoðana (INTOSAI). Alls voru þátttakendur á þinginu um 200.

Fyrir utan ýmis innri málefni samtakanna snerust umræður á þinginu einkum um þrjú efni: kröfur sem gerðar eru til stjórnenda hjá hinu opinbera, hlutverk ríkisendurskoðana við að tryggja ábyrgð í stjórnsýslunni og endurskoðun á sjálfstæðum eftirlitsstofnunum sem starfa á vegum framkvæmdarvaldsins. Ríkisendurskoðun var ein af 12 aðildarstofnunum sem boðið var að flytja framsöguerindi á þinginu. Sveinn Arason ríkisendurskoðandi fjallaði um breytingar á lagaumhverfi og starfsháttum Fjármálaeftirlitsins (FME) í kjölfar skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og skýrslu sem Kaarlo Jännäri, fyrrverandi yfirmaður fjáramálaeftirlits Finnlands, vann fyrir íslensk stjórnvöld. Í máli Sveins kom m.a. fram að með nýjum lögum um fjármálafyrirtæki, sem samþykkt voru á síðasta ári, hafi FME fengið auknar valdheimildir og svigrúm til að leggja sjálfstætt mat á starfsemi aðila sem undir lögin falla. Segja mætti að með þessum breytingum hefði eftirlitið færst frá því að vera byggt á ítarlegum reglum (rule-based) í átt til þess að vera bæði byggt á slíkum reglum og túlkun FME á tilteknum grunnreglum (principle-based). Að erindi sínu loknu svaraði Sveinn spurningum í pallborði og tók þátt í almennum umræðum.

Auk ályktunar um sjálfstæði ríkisendurskoðana samþykkti þingið ýmsar aðrar ályktanir sem varða eftirlit með ólíkum þáttum opinberrar stjórnsýslu og rekstrar. Þá samþykkti þingið stefnu samtakanna fyrir tímabilið 2011–17 þar sem hlutverk þeirra, framtíðarsýn, gildi, markmið og árangurskvarðar eru skilgreind.
Árið 2005 var þáverandi ríkisendurskoðandi, Sigurður Þórðarson, kjörinn í stjórn EUROSAI til 6 ára. Núverandi ríkisendurskoðandi tók sæti Sigurðar í stjórninni þegar hann lét af embætti árið 2008. Kjörtímabilinu er nú lokið og vék Sveinn formlega úr stjórn samtakanna á þinginu í Lissabon.