Stefna Ríkisendurskoðunar 2012–2015

Samkvæmt stefnu Ríkisendurskoðunar fyrir tímabilið 2012–2015 vill stofnunin njóta trausts Alþingis, stjórnvalda og almennings. Þessu markmiði hyggst hún m.a. ná með því að veita stjórnvöldum virkt aðhald, ástunda fagleg vinnubrögð og veita áreiðanlegar og óhlutdrægar upplýsingar um starfsemi ríkisins. Ríkisendurskoðun hefur mótað sér stefnu til næstu fjögurra ára sem byggð er á lögum um stofnunina og unnin samkvæmt aðferðafræði svokallaðs stefnumiðaðs árangursmats (balanced scorecard). Á stefnukorti eru framtíðarsýn og meginhlutverk stofnunarinnar tilgreind sem og þau lykilmarkmið sem hún vill stefna að. Fyrir hvert markmið hafa verið skilgreindir árangursmælikvarðar þannig að unnt verði að fylgjast með því hvernig stofnuninni miðar á hverjum tíma. Mælikvarðarnir og viðmið um árangur verða í áframhaldandi þróun á árinu 2012. Niðurstöður mælinga verða í framtíðinni að hluta til birtar í ársskýrslu stofnunarinnar.
Unnið hefur verið að mótun stefnu fyrir Ríkisendurskoðun um nokkurt skeið og hefur verið reynt að virkja alla starfsmenn stofnunarinnar í því ferli. Stofnunin vonar að stefnan og framkvæmd hennar muni verða til þess að skerpa áherslur í starfseminni og stuðla að bættri nýtingu þeirra fjármuna sem til hennar er varið.