Stefnt að því að eiginfjárstaða Ábyrgðasjóðs launa verði jákvæð í árslok 2013

Ríkisendurskoðun hvetur stjórn Ábyrgðasjóðs launa til að fylgja því eftir að rekstur sjóðsins skili afgangi svo takast megi að snúa við neikvæðri eiginfjárhagsstöðu hans, eins og stefnt er að. Ekkert kom fram í athugun Ríkisendurskoðunar sem bendir til þess að sjóðurinn fari ekki að lögum og reglum við afgreiðslu mála. Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar er fjallað um rekstur og fjárhagsstöðu Ábyrgðasjóðs launa. Sjóðurinn tryggir launþegum og lífeyrissjóðum greiðslur við gjaldþrot eða andlát atvinnurekanda. Hann er fyrst og fremst fjármagnaður með svokölluðu ábyrgðargjaldi sem innheimt er sem hluti tryggingagjalds. Ábyrgðargjaldið telst til svokallaðra markaðra tekna ríkisins en það eru skattar eða gjöld sem „eyrnamerkt“ eru vissum útgjaldaliðum. Alþingi ákveður á hverju ári með fjárlögum hve stórum hluta markaðra tekna stofnanir mega ráðstafa. Það sem eftir verður er fært sem svokallað „bundið eigið fé“ þeirra og mega þær ekki ráðstafa því nema með heimild í fjárlögum eða fjáraukalögum.
Í skýrslunni kemur fram að bundið eigið fé Ábyrgðasjóðs launa hefur verið neikvætt frá árinu 2003. Ástæðan sé einkum sú að ábyrgðargjaldið hafi ekki hækkað í samræmi við fjölgun krafna til sjóðsins. Þá eigi hár vaxtakostnaður vegna krafna einnig hér hlut að máli. Ábyrgðargjaldið var nýlega hækkað tímabundið og stefnt er að því að bundið eigið fé sjóðsins verði orðið jákvætt í lok næsta árs. Ríkisendurskoðun hvetur stjórn sjóðsins til að fylgja því eftir að reksturinn skili afgangi svo að þetta markmið náist. Raunar telur Ríkisendurskoðun ekki rétt að binda eigið fé sjóðsins enda sé skýrt tekið fram í lögum um sjóðinn að hann skuli standa við skuldbindingar sínar.

Ríkisendurskoðun kannaði afgreiðslu sjóðsins á kröfum vegna átta þrotabúa. Ekkert kom fram sem benti til þess að sjóðurinn hefði ekki farið að lögum og reglum við afgreiðslu þessara krafna.

Fram kemur að sjóðurinn ábyrgist m.a. viðurkenndar forgangskröfur vegna vangoldinna launa og lífeyrisiðgjalda sem fallið hafa í gjalddaga undangengna 18 mánuði frá úrskurðardegi um gjaldþrot. Vextir reiknast á kröfur á þessu tímabili og einnig þann tíma sem það tekur skiptastjóra að skila umsögnum um þær til sjóðsins. Vaxtagjöld vegna krafna sem biðu afgreiðslu sjóðsins námu 262 m.kr. árið 2011. Ríkisendurskoðun leggur til að kannað verði hvort ástæða sé til að stytta ábyrgðartímabil lífeyriskrafna og setja tímamörk á skil umsagna skiptastjóra til sjóðsins.

Vinnumálastofnun annast daglega umsýslu Ábyrgðasjóðs launa samkvæmt þjónustusamningi. Ágreiningur ríkir um hlutdeilt sjóðsins í rekstrarkostnaði stofnunarinnar. Ríkisendurskoðun leggur til að gerður verði nýr þjónustusamningur þar sem skýrt verði kveðið á um þetta atriði sem og hvaða verkefni Vinnumálastofnun skuli annast fyrir sjóðinn. Þá telur Ríkisendurskoðun mikilvægt að verklagsreglur sjóðsins verði uppfærðar.