Stjórnarfundur EUROSAI í Reykjavík

By 18.09.2006 2006 No Comments

Samtök evrópskra ríkisendurskoðunarstofnana (EUROSAI) héldu 31. stjórnarfund sinn í Reykjavík hinn 11. september í ár (2006). Fundurinn var haldinn í boði Ríkisendurskoðunar og var þar m.a. rætt um starfsemi samtakanna á síðasta ári og framtíðarverkefni þeirra.
EUROSAI voru stofnuð árið 1990 og eru aðildarríki nú 47. Meginmarkmið þeirra er að treysta samstarf evrópskra ríkisendurskoðunarstofnana og miðla milli þeirra heppilegum aðferðum við endurskoðun, upplýsingum, reynslu og þekkingu. Þá leitast samtökin einnig við að efla faglega menntun og færni þeirra sem sinna opinberri endurskoðun og stuðla að samræmi í störfum þeirra. Á undanförnum árum hefur auk þess færst í vöxt að endurskoðunarstofnanir samtakanna vinni sameiginleg eða hliðstæð verkefni, t.d. á sviði umhverfisendurskoðunar en þar verða mörk á milli landa oft óljós.

Í átta manna stjórn EUROSAI sitja nú fulltrúar eftirtalinna Evrópulanda: Þýskalands, Sviss, Spánar, Rússlands, Póllands, Litháen, Ítalíu og Íslands. Núverandi forseti EUROSAI er ríkisendurskoðandi Þjóðverja, Dr. Dieter Engels, en fulltrúi Íslands er Sigurður Þórðarson ríkisendurskoðandi. Fundinn í Reykjavík sátu auk þess áheyrnarfulltrúar sjö annarra ríkja: Austurríkis, Ungverjalands, Noregs, Portúgals, Stóra-Bretlands, Frakklands og Hollands. Fundarmenn urðu því um 40.

Í tengslum við fundinn var Alþingi Íslendinga heimsótt, auk þess sem Sólveig Pétursdóttir, forseti Alþingis, tók á móti fundargestum í Valhöll á Þingvöllum. Þá sátu þeir einnig boð Geirs H. Haarde forsætisráðherra í Þjóðmenningarhúsi. Almennt þótti þessi fyrsti stjórnarfundur EUROSAI sem haldinn er hér á landi takast mjög vel.