Stofnanir fyrir fólk með skerta færni fari undir sama þak

Ríkisendurskoðun hvetur stjórnvöld til að kanna mögulegan ávinning þess að flytja undir sama þak nokkrar stofnanir sem sinna þjónustu við fólk með skerta færni.Nokkrar ríkisstofnanir sinna rannsóknum, greiningu og margvíslegri þjónustu við fólk sem hefur skerta færni af einhverju tagi. Meðal þeirra eru Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga, Heyrnar- og talmeinastöð Íslands og Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra. Þrjár fyrstnefndu stofnanirnar heyra undir velferðarráðuneytið en sú síðastnefnda undir mennta- og menningarmálaráðuneytið.

Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að margir fatlaðir þurfi á þjónustu fleiri en einnar af þessum stofnunum að halda. Bæta megi aðgengi að þjónustu stofnananna og auka hagkvæmni í rekstri þeirra með því að flytja þær allar undir sama þak en þær eru nú dreifðar á höfuðborgarsvæðinu. Þá myndi slík breyting skapa betri aðstæður en nú eru til þverfaglegra rannsókna og stuðla að markvissari lausnum á vandamálum fatlaðra.

Ríkisendurskoðun hvetur ráðuneytin til að meta hugsanlegan ávinning af því að flytja fyrrnefndar stofnanir í sameiginlegt húsnæði. Þá telur Ríkisendurskoðun rétt að kannaðir verði kostir þess að TMF Tölvumiðstöð, sem rekin er af félagasamtökum fatlaðra og veitir fötluðum aðstoð á sviði tölvumála, starfi undir sama þaki og þessar stofnanir. Enn fremur telur Ríkisendurskoðun æskilegt að velferðarráðuneytið kanni möguleika á að sameina tvær eða fleiri stofnananna að fullu.