Taka þarf á rekstrarvanda framhaldsskólanna

Rekstrarstaða framhaldsskóla hefur almennt versnað síðustu ár og eru margir þeirra komnir með uppsafnaðan halla. Ríkisendurskoðun hvetur mennta- og menningarmálaráðuneytið til að taka á þessum vanda. Þá er ráðuneytið hvatt til að endurskoða reiknilíkanið sem notað er til að áætla fjárveitingar til skólanna svo að það nýtist betur við fjárlagagerð og sem virkt stjórn- og samskiptatæki.Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar er fjallað um rekstrarstöðu og reiknilíkan framhaldsskólanna. Fram kemur að á síðustu árum hafi rekstrarstaða skólanna almennt versnað og halli safnast upp hjá mörgum þeirra. Ástæðan sé einkum sú að framlög ríkisins hafi dregist saman án þess að þjónusta skólanna og þar með kostnaður hafi minnkað að sama skapi. Samtals hafi framlögin minnkað um 2 milljarða króna á tímabilinu 2008–2012 miðað við verðlag ársins 2012. Horfur séu á að vandi skólanna muni enn aukast á árinu 2014 enda sé í fjárlögum gert ráð fyrir að heildarfjárveiting til málaflokksins lækki um rúmlega 3% miðað við árið á undan.

Að mati Ríkisendurskoðunar þarf mennta- og menningarmálaráðuneytið að bregðast tafarlaust við bágri rekstrarstöðu framhaldsskólanna. Móta þarf skýra stefnu og forgangsröðun til að stuðla að auknu samræmi milli fjárveitinga og þeirrar þjónustu sem skólarnir eiga að veita. Í þessu sambandi bendir Ríkisendurskoðun á að ráðneytum ber að fylgja því eftir að stofnanir efni ekki til útgjalda umfram fjárheimildir og leggja til breytingar á þjónustunni ef í það stefnir.

Tillögur um fjárveitingar til framhaldsskólanna byggjast á útreikningum sérstaks reiknilíkans sem m.a. er ætlað að meta raunkostnað skólanna og stuðla að jafnræði þeirra til fjárveitinga. Einnig á líkanið að gera stjórnvöldum mögulegt að auka eða draga úr stuðningi við tiltekin markmið skólastarfs en taka um leið tillit til aðstæðna einstakra skóla. Fram kemur í skýrslunni að á síðustu árum hafi stjórnvöld að nokkru leyti lagt til hliðar það markmið reiknilíkansins að áætla raunkostnað skólanna. Þá kemur fram að líkanið hafi ekki verið endurskoðað síðan árið 2003 þótt reglugerð kveði á um að slíkt skuli gert á fjögurra ára fresti. Í könnun sem Ríkisendurskoðun gerði meðal skólameistara kom fram almenn óánægja með líkanið. Allir svarendur töldu að útreikningar þess á launakostnaði skólanna væru ekki í samræmi við raunkostnað. Þá töldu flestir svarendur forsendur líkansins óskýrar, kynningu á því ábótavant og að það nýttist ekki sem skyldi við að stuðla að faglegu starfi.

Ríkisendurskoðun telur brýnt að reiknilíkan framhaldsskólanna verði endurskoðað til að það nýtist betur en það gerir nú. Mikilvægt er að líkanið áætli með raunhæfum hætti nauðsynleg framlög til skólanna, einkum launakostnað sem er langstærsti útgjaldaliður þeirra. Við endurskoðunina þarf einnig að búa svo um hnúta að líkanið nýtist sem virkt stjórntæki og í samskiptum ráðuneytisins og skólanna. Í kjölfar endurskoðunar þarf að tryggja að kynning á líkaninu og aðgangur að því verði fullnægjandi.

Fjárveitingar til framhaldsskóla ráðast m.a. af því hversu margir nemendur þreyta próf. Því fleiri nemendur sem skila sér til prófs, þeim mun hærra verður framlag viðkomandi skóla. Með þessu felst viðleitni til að tengja fjárveitingar við árangur. Ekki er þó tekið tillit til kostnaðar vegna nemenda sem þreyta ekki próf en njóta að öðru leyti kennslu og þjónustu skólanna. Hlutfall slíkra nemenda er mishátt eftir skólum. Að mati Ríkisendurskoðunar er rétt að endurskoða þetta árangursviðmið til að stuðla betur að gæðum kennslu og jafnræði skólanna. Í því sambandi ber einnig að hafi í huga að samkvæmt lögum eiga nemendur rétt á að stunda nám í framhaldsskóla til 18 ára aldurs.