Taka verður á fjárhagsvanda Landbúnaðarháskólans

Stjórnendum Landbúnaðarháskóla Íslands hefur ekki tekist að láta enda ná saman í rekstrinum og skuldir hans eru miklar. Ríkisendurskoðun hvetur stjórnendur og yfirvöld menntamála til að taka á þessum vanda. Jafnframt minnir stofnunin á að forstöðumenn ríkisstofnana bera samkvæmt lögum ábyrgð á því að starfsemi þeirra sé í samræmi við fjárheimildir.Landbúnaðarháskóli Íslands var stofnaður árið 2005 með sameiningu Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri, Rannsóknarstofnunar landbúnaðarins og Garðyrkjuskóla ríkisins. Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að skólinn hefur nánast frá upphafi glímt við fjárhagsvanda sem ágerst hefur með árunum. Samkvæmt bráðabirgðauppgjöri fyrir árið 2011 nam uppsafnaður halli skólans samtals um 307 milljónum króna í árslok. Á sama tíma námu heildarskuldir skólans um 739 milljónum króna og höfðu fimmfaldast frá árinu 2005. Langstærstur hluti þeirra (94%) er skuld við ríkissjóð. Ríkisendurskoðun bendir á að hér er um að ræða fjármuni sem Alþingi hefur aldrei samþykkt að verja til skólans.

Í skýrslunni kemur fram að á undanförnum árum hefur nemendum og námsbrautum við Landbúnaðarháskólann fjölgað verulega. Stjórnendur og mennta- og menningarmálaráðuneytið telja að fjárhagsvanda skólans megi fyrst og fremst rekja til þess að framlög ríkisins hafa ekki haldið í við þessa þróun. Frá árinu 2009 hefur eftirlit með fjármálum skólans verið hert en stjórnendum hefur engu að síður ekki tekist að láta enda ná saman í rekstrinum.

Ríkisendurskoðun bendir á að forstöðumaður ber samkvæmt lögum ábyrgð á að rekstur stofnunar sé í samræmi við fjárheimildir. Ráðuneytið eigi að tryggja að rekstrarforsendur skólans séu raunhæfar og að stjórnendur sýni aga í fjármálastjórn. Þá þurfi ráðuneytið að ákveða hvernig fara skuli með uppsafnaðan halla skólans í samstarfi við stjórnendur hans og fjármálaráðuneytið.

Í skýrslunni eru gerðar athugasemdir við það hvernig skólinn ráðstafaði tilgreindum eignum sínum á árinu 2009. Í fyrsta lagi seldi skólinn hlut sinn í fyrirtækinu Orf líftækni ehf. fyrir 134 milljónir króna. Kaupverðið hefur enn ekki fengist greitt og nokkur óvissa er um að svo verði vegna erfiðrar fjárhagsstöðu kaupendanna. Í öðru lagi seldi skólinn búrekstur í Eyjafirði og tilheyrandi eignir fyrir 19 milljónir króna og hefur það fé aðeins skilað sér að hluta. Ríkisendurskoðun telur brýnt að hagsmunir ríkisins verði tryggðir vegna þessara viðskipta. Skili þau skólanum ekki raunverulegum tekjum beri að rifta kaupsamningum eða afskrifa eignirnar. Í þriðja lagi stofnaði skólinn árið 2009 einkahlutafélag um búrekstur sinn í Borgarfirði. Ríkisendurskoðun hvetur mennta- og menningarmálaráðuneytið til að meta hvort eðlilega hafi verið staðið að stofnun félagsins, þ.e. hvort ríkisstofnun geti með þessum hætti fært hluta starfsemi sinnar og eigna í sjálfstætt dótturfélag.

Bent er á að nefnd sem menntamálaráðherra skipaði árið 2009 komst að þeirri niðurstöðu að sameining Landbúnaðarháskólans við Háskóla Íslands fæli í sér tækifæri til að efla háskóla- og vísindastarf hér á landi.  Ríkisendurskoðun hvetur mennta- og menningarmálaráðuneytið til að ákveða sem fyrst framtíðarstöðu Landbúnaðarháskólans. Hingað til hafa fjárveitingar til skólans ekki verið í samræmi við reglur ráðuneytisins um framlög til framhalds- og háskóla. Hvort sem skólinn mun starfa áfram sem sjálfstæður háskóli eða sameinast Háskóla Íslands telur Ríkisendurskoðun mikilvægt að fjárveitingar til hans verði felldar að þessum reglum.