Þarf að efla eftirlit sitt með framkvæmd skuldbindandi samninga

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið þarf að efla eftirlit sitt með framkvæmd skuldbindandi samninga sem það hefur gert við aðila utan ríkisins, samræma ákvæði þeirra og skjalfesta verklagsreglur vegna samningamála.Á undanförnum árum hafa einstök ráðuneyti gert samninga við samtök, einkaaðila og sveitarfélög um að þessir aðilar taki að sér verkefni gegn greiðslum úr ríkissjóði. Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar er fjallað um fjóra slíka samninga sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins. Um er að ræða samninga sem gerðir eru samkvæmt ákvæðum annars vegar laga um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum og hins vegar búnaðarlaga. Áætlað er að kostnaður vegna þeirra hafi numið um 11 milljörðum króna á síðasta ári.

Samningar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins eru allir gerðir til lengri tíma en eins árs en samt sem áður innihalda aðeins tveir þeirra, þ.e. helmingur, ákvæði um að gerð skuli úttekt á framkvæmdinni á samningstíma. Í hvorugum segir að slík úttekt skuli fara fram undir lok tímans. Ríkisendurskoðun telur að ráðuneytið þurfi að efla eftirlit sitt með framkvæmd langtímasamninga með reglulegum úttektum á samningstíma og undir lok hans. Þá telur stofnunin að samræma þurfi ákvæði samninganna og að ráðuneytið þurfi að skjalfesta verklagsreglur vegna samningamála þar sem m.a. verði fjallað um eftirlit með framkvæmd samninga og meðferð upplýsinga frá samningsaðilum.

Ríkisendurskoðun ákvað á síðasta ári að kanna framkvæmd, eftirlit og eftirfylgni ráðuneyta með samningum sem þau hafa gert við aðila utan ríkisins og skilgreindir eru sem „skuldbindandi samningar“ í fjárlögum. Birt verður sérstök skýrsla fyrir hvert ráðuneyti og er skýrslan um skuldbindandi samninga sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins sú fimmta í röðinni en áður eru komnar út skýrslur um samninga forsætis-, innanríkis-, iðnaðar- og velferðarráðuneytisins.