Þjóðskrá Íslands sýni aðgæslu í rekstri

Þau fjárhagslegu markmið sem sett voru við myndun Þjóðskrár Íslands árið 2010 hafa ekki náðst. Ríkisendurskoðun hvetur innanríkisráðuneytið til að efla eftirlit sitt með starfseminni og stofnunina sjálfa til að sýna aðgæslu í rekstri. Einnig telur Ríkisendurskoðun að endurskoða þurfi lög sem varða starfsemina og fjármögnun hennar. Þá bendir Ríkisendurskoðun á að hægt sé að gera starfsemina hagkvæmari, skilvirkari og árangursríkari með tilteknum ráðstöfunum.Þjóðskrá Íslands varð til árið 2010 með sameiningu Þjóðskrár og Fasteignaskrár Íslands en stofnunin heyrir undir innanríkisráðuneytið. Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að þvert á sett markmið hafi starfsmönnum fjölgað og kostnaður aukist frá sameiningu. Eigið fé sé því nánast á þrotum. Ríkisendurskoðun gagnrýnir þetta og telur að skort hafi á aðhald í rekstrinum. Að mati Ríkisendurskoðunar ber ráðuneytið ásamt stjórnendum Þjóðskrár Íslands ríka ábyrgð á þróuninni.
Í skýrslunni er ráðuneytið hvatt til að efla eftirlit sitt með stofnuninni og hún til að sýna aðgæslu í rekstri. Einnig  bendir Ríkisendurskoðun á að endurskoða þurfi lög sem varða starfsemi Þjóðskrár Íslands enda taki þau ekki mið af samfélags- og tæknibreytingum undanfarinna áratuga. Þá þurfi að huga að því hvort stofnunin eigi að starfa alfarið samkvæmt gjaldskrá, hvort ríkissjóður eigi að standa undir starfseminni eða hvort blanda eigi saman þessum tveimur formum eins og nú er. Enn fremur sé mikilvægt að koma fjármögnum vegabréfaútgáfu stofnunarinnar í betra horf. Ekki sé eðlilegt að hún sé rekin með halla árum saman og að sá halli sé annaðhvort bættur með viðbótarframlagi í fjáraukalögum eða með afgangsgjöldum stofnunarinnar vegna annarrar starfsemi.
Fram kemur að þótt fagleg markmið sameiningarinnar hafi að miklu leyti náðst hafi Þjóðskrá Íslands ekki náð að sinna lögboðnu hlutverki sínu á eins hagkvæman, skilvirkan og árangursríkan hátt og æskilegt væri. Ástæðan sé sú að upplýsingakerfi séu að hluta til orðin úrelt sem og kerfi sem notuð eru við útgáfu vegabréfa. Þá hafi starfsmannavelta verið mikil. Ríkisendurskoðun hvetur innanríkisráðneytið til að huga að endurnýjun þessara kerfa. Einnig telur Ríkisendurskoðun að hagræða megi í rekstri og auka skilvirkni og árangur með bættum verklagsreglum og vinnulýsingum. Þá þurfi stjórnendur að leggja aukna áherslu á mannauðsmál til að stofnunin starfi sem ein heild. Loks leggur Ríkisendurskoðun áherslu á að öllum starfsmönnum Þjóðskrár Íslands verði gert að færa verkbókhald.