Þjónusta við aldraða. Stjórnsýsluúttekt

By 3.11.2005 2005 No Comments

Íslensk stjórnvöld hafa á undanförnum árum unnið að því að auka og bæta þá þjónustu sem veitt er öldruðum, þ.e. fólki eldra en 67 ára. Enn vantar þó nokkuð upp á að opinber markmið um þessa þjónustu hafi að öllu leyti náð fram að ganga og að öldruðum sé í senn veitt viðeigandi aðstoð til að búa sem lengst á eigin heimili og trygg aðstaða á öldrunarheimili þegar slíkt er ekki lengur mögulegt.
Í stjórnsýsluúttekt sinni Þjónusta við aldraða leitast Ríkisendurskoðun m.a. við að lýsa og meta hvernig stjórnvöldum hefur tekist að ná mælanlegum og tímasettum markmiðum sínum um uppbyggingu og umfang öldrunarþjónustu hér á landi, þá þjónustu sem öldruðum er veitt á stofnunum og í heimahúsum og fjármögnun og rekstur öldrunarheimila. Í skýrslunni kemur fram að heildarframlög ríkisins til öldrunarmála námu 13,8 ma.kr. árið 2003. Engu að síður var meira en helmingur allra öldrunarheimila í landinu rekinn með halla. Ríkisendurskoðun telur að kanna þurfi betur kostnaðarforsendur daggjalda og tengja þau umönnunarþörf og öðrum þáttum sem hafa áhrif á kostnað.

Ríkisendurskoðun telur mikilvægt að stjórnvöld haldi áfram að marka sér stefnu í öldrunarmálum og þrói nánar og endurskoði þær áætlanir sem gerðar hafa verið í þessum málaflokki. Í því samhengi ber að horfa heildstætt á alla möguleika til að auðvelda öldruðum að búa sem lengst á eigin heimili, svo sem með aukinni félagslegri heimaþjónustu. Slík þjónusta hefur í raun dregist saman á undanförnum árum enda hefur kostnaður sveitarfélaga ekki hækkað í samræmi við fjölgun aldraðra. Sömuleiðis væri æskilegt að beina þessari þjónustu í auknum mæli til elsta aldurshópsins, líkt og gert er t.d. í Svíþjóð, og veita honum meiri þjónustu en nú er gert. Þá er einnig ljóst að bæta þarf við hjúkrunar- og dagvistarrýmum í landinu. Við það uppbyggingarstarf þarf m.a. að leiðrétta það misvægi milli landshluta sem er á framboði á rýmum og því er eðlilegt að heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið hafi meira frumkvæði að uppbyggingu öldrunarrýma en nú er.

Í skýrslunni tekur Ríkisendurskoðun m.a. til athugunar þrjú meginmarkmið stjórnvalda í öldrunarmálum. Í fyrsta lagi það að fólk sem er í mjög brýnni þörf fyrir hjúkrunarrými þurfi ekki að bíða lengur en í 90 daga eftir vistun. Það markmið hefur þegar náðst ef miðað er við tímann frá því að fólk er talið vera í mjög brýnni þörf þar til það fær vistun. Árið 2003 var sá biðtími að meðaltali 86 dagar. Að meðaltali þurfti þetta fólk hins vegar að bíða í samtals 213 daga frá gerð fyrsta vistunarmats þar til hjúkrunarrými fékkst. Langflestir biðu í Reykjavík og á Reykjanesi enda voru þar hlutfallslega fæst hjúkrunarrými á landinu á hverja 1.000 aldraða íbúa.

Annað markmið stjórnvalda felur í sér að meira en 75% fólks 80 ára og eldra sé við svo góða heilsu að það geti með viðeigandi stuðningi búið heima. Sé horft til hlutfalls þessa aldurshóps sem dvaldi á öldrunarstofnunum árið 2003 (23,8%) hefur þetta markmið náðst. Þó ber að hafa í huga að það ár biðu um 310 einstaklingar í þessum aldurshópi eftir hjúkrunarrými í mjög brýnni þörf vistun. Þetta eru um 3,5% allra 80 ára og eldri. Séu þeir taldir með þegar metinn er fjöldi þeirra sem getur búið heima vantar enn nokkuð upp á að 75% markmiðinu hafi verið náð.

Þriðja markmið stjórnvalda felur í sér að til séu í landinu hjúkrunarrými fyrir 25% aldurshópsins 80 ára og eldri. Þetta svaraði til 2.207 rýma árið 2003 en þá voru alls 2.212 hjúkrunarrými fyrir aldraða í landinu. Fólk undir áttrætt hefur reyndar nýtt rúmlega 30% allra slíkra rýma undanförnum árum, t.d. 624 árið 2003. Ef tekið er tillit til þeirra skortir talsvert upp á að nógu mörg rými séu til fyrir elsta aldurshópinn. Hjúkrunarrýmum í landinu fjölgaði þó um 54 umfram áætlun árin 2002-2004 en mismikið eftir landshlutum.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að nokkur munur er á magni og gæðum þeirrar þjónustu sem einstakar heilbrigðisstofnanir og öldrunarheimili veita öldruðum. Þá er einnig mjög misjafnlega búið að íbúum slíkra stofnana þegar kemur að húsnæði. Sums staðar hafa allir einstaklingsrými með sérbaðherbergi en annars staðar þarf fólk að deila persónulegu rými með öðrum íbúum. Af öllum hjúkrunarrýmum í landinu er aðeins rúmur helmingur (57%) einstaklingsrými og aðeins 29% íbúa hafa sérbaðherbergi. Þetta er mjög frábrugðið því sem er t.d. í Noregi þar sem einbýli eru 91% af heildarfjölda hjúkrunarrýma í landinu.

Þótt lítið sé um kvartanir vegna þjónustu öldrunarheimila telur Ríkisendurskoðun nauðsynlegt að stjórnvöld setji fram kröfur um lágmarksþjónustu þeirra heimila sem rekin eru fyrir opinbert fé. Slíkt veiti heimilunum ekki aðeins eðlilegt aðhald heldur stuðli einnig að auknu jafnrétti íbúanna. Jafnframt þarf að sjá til þess að heimilin meti ástand og umönnunarþörf íbúa sinna á hverju ári. Að lokum telur Ríkisendurskoðun rétt að kanna hvort ekki ætti að fækka þjónustuhópum aldraða í landinu og veita þeim enn betri fræðslu við að meta þörf aldraðra einstaklinga fyrir þjónustu öldrunarstofnana.