Þróun til betri vegar

Flugvöllur Grímsey

Ríkisendurskoðun hefur, að beiðni forsætisnefndar Alþingis, kannað nokkra þætti í rekstri Isavia ohf. sem snúa að starfsmannamálum, samskiptum við viðskiptavini og aðra hagsmunaaðila, launa- og starfskjörum yfirstjórnar, áfengissölu Fríhafnarinnar og stöðu flugöryggismála.

Úttekt Ríkisendurskoðunar bendir ekki til alvarlegra vandamála hjá Isavia í samskiptum við starfsmenn eða viðskiptaaðila. Starfsmannavelta er innan eðlilegra marka og eðlilegar skýringar eru á veikindafjarvistum. Niðurstaða í kærumálum vegna útboða gagnvart Isavia hefur nær alltaf fallið félaginu í vil.

Hnökrar hafa verið á samskiptum við stéttarfélög og í samskiptum stjórnenda við starfsmenn. Þá telja einstaka viðskiptaaðilar félagið hafa neikvætt viðhorf til útboða og aðrir segjast veigra sér við að gagnrýna félagið opinberlega því þeir telja að slíkt geti skaðað samskipti sín við það. Hagsmunaaðilar sem rætt var við telja að ýmsir þættir sem hafi orsakað ágreining og vandamál séu að þróast til betri vegar.

Sumt af þeirri gagnrýni sem höfð hefur verið uppi gagnvart Isavia heyrir ekki undir félagið, heldur stjórnvöld. Má þar nefna ákvarðanir um uppbyggingu innanlandsflugvalla, sem mikilvægt er að stjórnvöld marki skýra stefnu um, úthlutun afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli og ákvarðanir um fyrirkomulag fríhafnarverslunar.

Endurskoðun hefur ekki leitt í ljós athugasemdir við ákvörðun á launagreiðslum stjórnenda en kjör þeirra eru í samræmi við samþykkta starfskjarastefnu félagsins og vel innan þeirra marka sem tíðkast hjá stjórnendum fyrirtækja af sambærilegri stærð. Skoðun á árinu 2015 benti þó til að skerpa þyrfti á ákveðnum atriðum við mat á bifreiðahlunnindum og tryggja þyrfti að ferðaáætlanir framkvæmdastjóra séu ávallt staðfestar.

Sala áfengis í fríhafnarverslun byggir á fyrirkomulagi sem stjórnvöld hafa ákveðið. Lagaákvæði um áfengissölu í fríhöfnum er hins vegar óljós og skýra þyrfti betur í lögum að hvaða marki sala áfengis í fríhöfnum geti vikið frá hinum ýmsu skilyrðum sem annars gilda um smásölu áfengis.

Úttektir sem gerðar hafa verið benda ekki til annars en að staða flugöryggismála sé í mjög ásættanlegu horfi. Ábendingar hafa verið settar fram um ýmislegt sem betur má fara og er það mat Samgöngustofu að almennt hafi gengið vel að ráða bót á frávikum, þótt dæmi séu um að dregist hafi að gera úrbætur.

Skjöl