Tryggja þarf þjónustu við börn sem glíma við alvarlegan og fjölþættan vanda

Ríkisendurskoðun telur að velferðarráðuneytið þurfi að efla forystu- og yfirstjórnarhlutverk sitt á sviði barnaverndarmála. Einnig verði að tryggja að tilteknir hópar barna, sem glíma við alvarlegan og fjölþættan vanda, fái þjónustu við hæfi. Þá þurfi að mæta þörf einstakra barnaverndarnefnda fyrir aðstoð við úrlausn mála. Að mati Ríkisendurskoðunar eru samskipti Barnaverndarstofu og barnaverndarnefnda almennt góð. Fagleg samstaða ríkir innan málaflokksins um áherslur í barnaverndarstarfi og bið eftir þjónustu hefur styst á undanförnum árum. Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar er fjallað um stöðu barnaverndarmála hér á landi en ábyrgð á þeim er bæði á hendi ríkis og sveitarfélaga. Um málaflokkinn gilda sérstök lög, barnaverndarlög. Eitt markmiða þeirra er að tryggja að börn sem búa við óviðunandi aðstæður eða stofna velferð sinni í hættu fái aðstoð við hæfi. Velferðarráðuneytið fer með yfirstjórn málaflokksins. Barnaverndarstofa annast daglega stjórnsýslu en barnaverndarnefndir sveitarfélaga eru grunneiningar kerfisins. Þær kanna aðstæður og ástand barna sem þeim er tilkynnt um og ákveða hvort úrræðum skuli beitt til að mæta þörfum þeirra. Barnaverndarstofa hefur eftirlit með starfsemi nefndanna og leiðbeinir þeim um túlkun og framkvæmd laganna. Þá hefur Barnaverndarstofa umsjón með ýmsum úrræðum fyrir börn í vanda og fjölskyldur þeirra. Stofan fer m.a. með yfirstjórn meðferðarheimila á vegum ríkisins og annast samninga og samskipti við einkarekin heimili. Í ákveðnum tilvikum geta aðilar barnaverndarmála (einkum forráðamenn barna) skotið ákvörðunum barnaverndarnefnda og Barnaverndarstofu til kærunefndar barnaverndarmála sem úrskurðar um lögmæti þeirra.
Í skýrslunni kemur fram að Ríkisendurskoðun telur yfirstjórn ráðuneytisins veika. Það hafi til þessa ekki sinnt sem skyldi því hlutverki sínu að móta stefnu í málaflokknum. Samkvæmt lögum ber ráðuneytinu að móta framkvæmdaáætlun í barnavernd til fjögurra ára í senn. Ríkisendurskoðun telur að ráðuneytið þurfi að vanda betur vinnulag við gerð og framlagningu þessarar áætlunar svo hún þjóni tilgangi sínum. Í þeirri vinnu eigi ráðuneytið að hafa víðtækt samráð við Barnaverndarstofu, sveitarfélög og aðra hlutaðeigandi aðila. Almennt hvetur Ríkisendurskoðun ráðuneytið til að efla samskipti sín við barnaverndaryfirvöld og hafa forgöngu um lausn vandamála ef og þegar þau koma upp.
Fram kemur að innan málaflokksins ríki fagleg samstaða um áherslur í barnaverndarstarfi. Þá sé almenn sátt um þau úrræði sem í boði eru og bið eftir þjónustunni hafi styst á undanförnum árum. Á hinn bóginn séu sérfræðingar í þessum málum sammála um að tilteknir hópar barna fái ekki viðunandi þjónustu. Annars vegar börn á aldrinum 16–18 ára sem glíma við alvarlegan vímuefnavanda og hafa hneigst til afbrota. Hins vegar börn með fjölþættan vanda, þ.e. þroskaröskun, geðröskun og hegðunarvanda. Ríkisendurskoðun hvetur velferðarráðuneytið til að tryggja sérhæfða þjónustu fyrir þessa hópa.
Samskipti barnaverndarnefnda og Barnaverndarstofu eru almennt góð ef marka má niðurstöður viðhorfskönnunar sem Ríkisendurskoðun gerði. Hnökrar hafa einkum stafað af því að einstakar nefndir telja að stofan veiti þeim ekki nægjanlega ráðgjöf við úrlausn mála. Ríkisendurskoðun hvetur velferðarráðuneytið til að skýra betur ráðgjafarhlutverk Barnaverndarstofu. Jafnframt er ráðuneytið hvatt til að meta þörf einstakra nefnda fyrir aðstoð og ákveða hvernig henni verði best mætt.
Samkvæmt lögum er Barnaverndarstofa sjálfstæð stofnun en undir yfirstjórn ráðherra. Ríkisendurskoðun telur óljóst hvað í þessu felst. Stofnunin hvetur velferðarráðuneytið til að skera úr um hversu langt stjórnunarheimildir þess gagnvart Barnaverndarstofu ná.