Tvær ábendingar um lyfjamál frá 2011 ítrekaðar

Velferðarráðuneytið þarf að leita leiða til að bæta aðgang Íslendinga að stærri lyfjamörkuðum til að draga úr lyfjakostnaði ríkisins. Þá þarf ráðuneytið að skilgreina hvernig meta skuli áhrif og árangur af breyttri lyfjanotkun.Árið 2011 birti Ríkisendurskoðun skýrslu um þróun lyfjakostnaðar hér á landi á árunum 2008–2010. Þar kom m.a. fram að aðgerðir íslenskra stjórnvalda á tímabilinu hefðu skilað verulegum árangri við að halda niðri lyfjakostnaði ríkisins. Í því sambandi hefði ákvörðun um að einskorða greiðsluþátttöku ríkisins í nokkrum lyfjaflokkum við ódýrustu lyfin vegið þungt. Þar sem íslenskur lyfjamarkaður væri lítill í samanburði við önnur norræn ríki hefðu neytendur hér þó takmarkaðri aðgang að ódýrum lyfjum, einkum samheitalyfjum, en neytendur þar. Í skýrslunni beindi Ríkisendurskoðun alls fjórum ábendingum til velferðarráðuneytisins:

  • Vinna þarf að því í samstarfi við stjórnvöld annarra ríkja að bæta aðgang Íslendinga að stærri lyfjamörkuðum til að draga úr lyfjakostnaði hérlendis.
  • Leita þarf leiða til að fjölga lyfjum á innlendum markaði hér í samvinnu við stjórnvöld annarra ríkja.
  • Skilgreina þarf hvernig meta skal áhrif og árangur af breyttri lyfjanotkun í kjölfar aðgerða stjórnvalda til að draga úr lyfjakostnaði. Vitað er að slíkar breytingar geta haft aukaáhrif í för með sér og hugsanlega valdið auknum kostnaði annars staðar í heilbrigðiskerfinu þegar til lengri tíma er litið.
  • Tryggja þarf að útboð á lyfjum leiði ekki til fákeppni. Til dæmis geti stjórnvöld stuðlað að virkri samkeppni með því að taka ekki ávallt einungis lægsta tilboði heldur semja jafnframt við aðra bjóðendur.

Í nýrri eftirfylgniskýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að nú þremur árum síðar hafi lyfjavörunúmerum á markaði hérlendis fjölgað um 6%. Eitt lyfjavörunúmer samsvarar einu lyfi í tilteknu formi/styrkleika og magni (pakkningu). Þá hafi ráðuneytið gert ráðstafanir til að bæta fyrirkomulag innkaupa, m.a. til að stuðla að því að útboð leiði ekki til fákeppni. Ríkisendurskoðun telur ekki þörf á að ítreka ábendingar sínar um þessi atriði. Hins vegar telur stofnunin að viðleitni stjórnvalda undanfarin ár til að fá aðgang að stærri lyfjamörkuðum hafi ekki skilað beinum árangri. Ekki hafi heldur verið lagt mat á áhrif eða árangur breyttrar lyfjanotkunar. Stofnunin ítrekar því ábendingar sínar um þessi atriði.