Í samræmi við menntunarstefnu sína og ákvæði staðla Alþjóðasamtaka ríkisendurskoðana leggur Ríkisendurskoðun áherslu á að starfsfólk stofnunarinnar varðveiti og efli fræðilega og hagnýta kunnáttu sína með endurmenntun.

Starfsmönnum býðst m.a. að stunda háskólanám samhliða vinnu með aðstoð stofnunarinnar samkvæmt sérstökum samningum þar um. Þeir starfsmenn sem gert hafa slíka samninga við stofnunina geta varið allt að 4 klst. af vinnutíma sínum í námið á móti hverri námseiningu sem þeir ljúka.

Á hverju ári sækja starfsmenn margvísleg námskeið. Jafnan er lögð áhersla á að velja námskeið sem líklegt er talið að auki hæfni starfsmanna til að leysa verkefni sín. Þegar um er að ræða hæfni sem margir starfsmenn þurfa að búa yfir hefur stofnunin farið þá leið að kaupa inn sérsniðin námskeið.