1. gr.

Þegar skýrslubeiðni frá Alþingi berst Ríkisendurskoðun, sbr. 17. gr. laga nr. 46/2016 um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga, tekur ríkisendurskoðandi afstöðu til þess hvort umbeðin skýrsla falli undir starfsemi stofnunarinnar. Sé niðurstaðan að svo sé felur ríkisendurskoðandi sviðsstjóra eða skrifstofustjóra að annast afgreiðslu beiðninnar. Sviðsstjóri/skrifstofustjóri ákveður hvaða starfsmanni/mönnum hann felur að vinna verkið. Stofna skal sérstakt mál um hverja skýrslubeiðni í skjalakerfi stofnunarinnar.

2. gr.

Samþykktar skýrslubeiðnir frá Alþingi skulu njóta forgangs umfram önnur verkefni sem Ríkisendurskoðun hefur til úrvinnslu á hverjum tíma.

3. gr.

Að jafnaði skal afgreiðsla á skýrslubeiðni frá Alþingi ekki taka lengri tíma en sex mánuði frá því að beiðni berst þar til skýrslu er skilað.

4. gr.

Sviðsstjóri/skrifstofustjóri ber ábyrgð á því að unnin sé verkáætlun þar sem m.a. komi fram markmið og afmörkun verkefnisins, sá tími sem talið er að það muni útheimta og áætluð verklok. Þegar endanleg verkáætlun liggur fyrir skal senda hana stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis til upplýsingar. Breytist verkáætlun í veigamiklum atriðum síðar, t.d. ef við blasir að skýrslugerðin muni taka lengri tíma en í upphafi var áætlað, skal ríkisendurskoðandi gera stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd skriflega grein fyrir því og þeim ástæðum sem þar búa að baki.

5. gr.

Drög að skýrslu sem unnin eru samkvæmt beiðni Alþingis skulu gæðarýnd innanhúss af tveimur gæðarýnum sem ríkisendurskoðandi skipar. Einnig skal senda hlutaðeigandi aðilum skýrsludrög til umsagnar.

6. gr.

Fullgerð skýrsla sem unnin er samkvæmt beiðni Alþingis skal send stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd með bréfi og birt á vefsíðu Ríkisendurskoðunar. Hafi önnur þingnefnd eða einstakir þingmenn átt frumkvæði að skýrslubeiðninni skal jafnframt senda viðkomandi eintak af skýrslunni.

Ríkisendurskoðun, janúar 2017