Starfsmannafélag Ríkisendurskoðunar er í senn stéttar- og skemmtifélag sem allir starfsmenn stofnunarinnar eiga aðild að. Tilgangur félagsins er að semja um kaup og kjör félagsmanna og standa fyrir skemmtunum og öðru félagsstarfi.  Í stjórninni eru fimm starfsmenn sem kosnir eru á aðalfundi.  Félagið leggur áherslu á að bjóða upp á fjölbreytta dagskrá fyrir starfsmenn og fjölskyldur þeirra.

Sú hefð hefur skapast að starfsmannafélagið skipuleggi fjölskylduferð á vorin. Á haustin eru haldin skemmtikvöld og árshátíð. Í desember er haldið jólaball og er venjan að bjóða skrítnum sveinum í heimsókn ásamt móður þeirra. Að auki stendur starfsmannafélagið fyrir ýmsum öðrum viðburðum árið um kring.

Í tengslum við starfsmannafélagið eru starfræktir þrír sjóðir. Orlofssjóður sér um útleigu og rekstur sumarbústaða í Húsafelli og Laugarási en þeir eru leigðir út til starfsmanna allt árið. Þá styrkja starfsmenntunarsjóður og fjölskyldu- og styrktarsjóður starfsmenn m.a. til endurmenntunar, fæðingarorlofs eða tiltekinna útgjalda. Sjóðirnir eru í eigu starfsmanna Ríkisendurskoðunar og Alþingis.