Undirstaða gæðastefnunnar og ábyrgð

Ríkisendurskoðun vinnur í samræmi við lög um stofnunina, þær siða- og verklagsreglur sem hún hefur sett starfsfólki sínu og þá staðla sem Alþjóðasamtök ríkisendurskoðana (INTOSAI) hafa gefið út um starfsemi slíkra stofnana, að svo miklu leyti sem ákvæði þeirra falla að lögboðnu hlutverki og aðstæðum Ríkisendurskoðunar. Grundvöllur gæðastefnunnar er gæðastaðall INTOSAI (ISSAI 40). Við vinnu sína skulu (löggiltir) endurskoðendur einnig fylgja alþjóðlegum staðli endurskoðenda um gæðaeftirlit (ISQC – 1) eftir því sem við á.

Lög þessi og reglur setja starfsemi Ríkisendurskoðunar almenna umgjörð og eru undirstaða gæða stefnu hennar. Stefnan skal stuðla að fastmótuðum, faglegum og skilvirkum vinnubrögðum og tryggja innbyrðis samræmi og gæði verkefna. Að auki fylgja einstök svið stofnunarinnar skilgreindum verklagsreglum og ferlum sem lúta sérstaklega að þeim verkefnum sem þau sinna og þeim aðferðum sem þar er beitt (fjárhagsendurskoðun, stjórnsýsluendurskoðun, önnur verkefni).

Ríkisendurskoðandi ber ábyrgð á að starfsemi stofnunarinnar uppfylli þær kröfur sem felast í gæðastefnu hennar. Hann ber þar með ábyrgð á að innleiða stefnuna og þann laga- og reglugrunn sem hún byggir á, kynna starfsmönnum hana, þróa hana og viðhalda. Þá skal hann tryggja að verktakar sem starfa fyrir eða í umboði Ríkisendurskoðunar fylgi gæðastefnu stofnunarinnar. Ríkisendurskoðandi getur falið einstökum starfsmönnum stofnunarinnar að sinna í sínu nafni tilteknum þáttum gæðastefnunnar.

Stjórnendur einstakra sviða bera fyrir sitt leyti ábyrgð á að starfsemi sviðanna sé í samræmi við þær reglur og leiðbeiningar sem settar hafa verið vegna þeirra verkefna sem sviðin sinna og að einstök verk uppfylli þær kröfur sem þar koma fram. Á sama hátt ber einstökum starfsmönnum að kynna sér til hlítar þær reglur og leiðbeiningar sem þeim er ætlað að vinna samkvæmt og fylgja þeim í daglegum störfum sínum.

Uppbygging gæðastefnunnar

 Uppbygging gæðastefnu