Ríkisendurskoðun leggur áherslu á að starfsfólk stofnunarinnar hafi þekkingu, reynslu og hæfni til að sinna þeim verkefnum sem henni eru falin hverju sinni. Auk þess að ráða vel menntaðan hóp sérfræðinga með fjölbreytilegan bakgrunn vill stofnunin leggja sitt af mörkum til að viðhalda og efla fagþekkingu starfsfólks og auka færni þess til að takast á við verkefni sín og þroskast í starfi.

Til að tryggja þetta mun stofnunin beita sér fyrir eftirfarandi:

  • Styðja eftir föngum það starfsfólk sem stefnir að löggildingu sem endurskoðendur, tölvuendurskoðendur og innri endurskoðendur eða stundar framhaldsnám, t.d. á sviðum stjórnunar- og rekstrarfræða.
  • Gefa starfsfólki kost á að endurmennta sig á starfssviði sínu eða auka við þá þekkingu sem það hefur. Í því skyni fær það árlega tiltekinn tíma til að sækja námskeið, ráðstefnur eða fræðslufundi innan eða utan stofnunarinnar.
  • Halda yfirlit um símenntun starfsfólks, meta fræðsluþörf þess og fylgjast með gæðum fræðslustarfsins.

Ríkisendurskoðun leggur áherslu á að símenntun starfsfólks er jafnt á ábyrgð starfsfólks sjálfs sem stofnunarinnar.