Ríkisendurskoðun mun taka þátt á samfélagsmiðlum í samræmi við upplýsingastefnu stofnunarinnar, sérstaklega gr. 1.1 um ytri upplýsingamiðlun þar sem vísað er til laga nr. 46/2016 um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga, staðla Alþjóðasamtaka ríkisendurskoðana um gagnsæi (ISSAI 20) og samfélagslegs ávinnings af starfsemi ríkisendurskoðana (ISSAI 12).

Markmið þátttöku Ríkisendurskoðunar á samfélagsmiðlum er:

 • Að deila niðurstöðum athugana Ríkisendurskoðunar sem birtar eru opinberlega.
 • Að upplýsa fjölmiðla og almenning um hlutverk stofnunarinnar og störf.
 • Að stuðla að auknu gagnsæi í ríkisrekstri.
 • Að hvetja til umræðu um fjármál ríkisins og aukna hagsýni, skilvirkni og/eða árangur í ríkisrekstri.
 • Að hvetja almenning til að koma á framfæri ábendingum um hvernig betur má fara með almannafé.

Markhópur Ríkisendurskoðunar á samfélagsmiðlum er almenningur, stjórnmálamenn, fjölmiðlar, stjórnsýslan og aðrir hagaðilar.

Megináherslur Ríkisendurskoðunar á samfélagsmiðlum eru:

 • Að vera upplýsandi.
 • Að tjá sig á vönduðu, tilbreytingarríku og auðskiljanlegu nútímamáli. Hafa ber í huga að málfar á samfélagsmiðlum er alla jafna ekki eins formfast og í útgefnum skýrslum.
 • Að tala við alla af virðingu og sýna kurteisi.
 • Að svara öllum ábendingum og skilaboðum eins hratt og kostur er, helst innan sólarhrings.
 • Að ábendingum sé svarað í samstarfi við viðeigandi starfsmann stofnunar.
 • Að gera grein fyrir mistökum, þegar þau eiga sér stað og leiðrétta þau hratt og örugglega.
 • Að virða friðhelgi einkalífs fólks.
 • Innlegg sem falla ekki að reglum Facebook eða fela í sér meiðandi, niðrandi eða óviðeigandi ummæli um einstaklinga og hópa verður eytt.