Starfsmannastefna Ríkisendurskoðunar mótast af þeirri hugsun að vel menntað, áhugasamt og ánægt starfsfólk sé lykillinn að árangri. Meginmarkmið hennar er því að búa starfsmönnum sínum góð starfsskilyrði, auka færni þeirra og efla starfsanda á vinnustað. Á þann hátt sinni stofnunin best hlutverki sínu og margþættum og síbreytilegum verkefnum.

Helstu efnisþættir í starfsmannastefnu Ríkisendurskoðunar eru eftirfarandi:

  • Ríkisendurskoðun vill að stofnunin sé eftirsóknarverður vinnustaður þar sem starfsfólki líður vel og því eru búin góð skilyrði til að sinna störfum sínum. Jafnframt vill stofnunin efla félagslíf starfsmanna og gera þeim kleift að samræma vinnu og einkalíf.
  • Ríkisendurskoðun vill taka vel á móti nýjum starfsmönnum og stuðla að því að þeir samlagist fljótt þeim starfsmönnum sem fyrir eru. Jafnframt er þeim gerð grein fyrir verkefnum stofnunarinnar og réttindum sínum og skyldum á vinnustað.
  • Ríkisendurskoðun leggur áherslu á góðan starfsanda á vinnustað. Til að stuðla að því er mikilvægt að jafnrétti sé haft í heiðri, að fólk sýni hvert öðru vinsemd, umburðarlyndi og traust og að öll boðskipti innan stofnunar séu jákvæð, greið og góð.
  • Ríkisendurskoðun væntir þess að starfsmenn vinni verk sín af fagmennsku, kostgæfni og heilindum. Um leið vill stofnunin koma til móts við væntingar starfsmanna um starfsöryggi, sanngirni, traust og tillitssemi og möguleika til að vaxa og þroskast í starfi.
  • Ríkisendurskoðun leggur mikla áherslu á að starfsmenn viðhaldi menntun sinni og efli hana, m.a. með því að taka virkan þátt í endur- og símenntunarstarfi stofnunarinnar.
  • Ríkisendurskoðun telur mikilvægt að starfsfólk takist reglulega á við ný verkefni, m.a. með því að flytja sig milli starfa. Á þann hátt þroski fólk færni sína og vinni gegn einhæfni í störfum.
  • Yfirmaður Ríkisendurskoðunar boðar starfsmenn árlega til starfsmannaviðtals þar sem m.a. er rætt um árangur þeirra og frammistöðu. Um leið gefst starfsmönnum kostur á að koma sjónarmiðum sínum og óskum á framfæri.