Frá árinu 1999 hefur Ríkisendurskoðun haft sérstaka umhverfisstefnu. Hingað til hefur þessa stefna fyrst og fremst falist í flokkun á pappír og úrgangi frá stofnuninni til endurvinnslu, þ.e.:

  • Flokkun skrifstofupappírs.
  • Flokkun lífræns úrgangs o.fl.
  • Flokkun pappa, dagblaða og tímarita.
  • Flokkun spilliefna o.fl.

Ríkisendurskoðun stefnir að því að taka fleiri atriði inn í umhverfisstefnu sína á komandi árum, einkum almenna nýtingu á þeim aðföngum sem stofnunin kaupir vegna starfsemi sinnar. Þar má m.a. nefna rafmagn, heitt vatn og pappír. Þá hefur stofnunin sömuleiðis það markmið að velja viðurkenndar umhverfisvænar vörur og orkusparandi tæki við innkaup og endurnýta vörur og efni eftir því sem kostur er. Að lokum telur Ríkisendurskoðun mikilvægt að vinnuumhverfi starfsfólks sé bæði snyrtilegt og heilsusamlegt svo að fólki líði vel við vinnu sína.

Umhverfisstefna stofnana byggir ævinlega á virkri þátttöku allra starfsmanna. Það er því mikilvægt að þeir beri virðingu fyrir umhverfi sínu og geri sér grein fyrir gildi þess að að fara vel með þau aðföng sem keypt eru. Meðal annars er eðlilegt að fólk gæti hófs í notkun pappírs, svo sem við ljósritun og prentun, og dragi eftir föngum úr orkunotkun, svo sem með því að slökkva á ljósum og öðrum rafmagnstækjum í lok vinnudags.