1. Ytri upplýsingamiðlun

1.1   Forsendur og markmið

1. Ríkisendurskoðun er sjálfstæð og óháð stofnun sem starfar á vegum Alþingis. Meginhlutverk hennar er að endurskoða ríkisreikning og reikninga ríkisaðila, hafa eftirlit með og stuðla að umbótum á fjármálastjórn ríkisins og nýtingu almannafjár.

2. Ytri upplýsingamiðlun Ríkisendurskoðunar er í samræmi við lög um stofnunina nr. 46/2016 og staðla Alþjóðasamtaka ríkisendurskoðana um gagnsæi (ISSAI 20) og samfélagslegan ávinning af starfsemi ríkisendurskoðana (ISSAI 12).

3. Niðurstöður athugana Ríkisendurskoðunar skal birta opinberlega nema þær varði málefni sem leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls eða ef birting þeirra er talin geta skaðað viðkomandi starfsemi.

4. Skýrslur og önnur rit Ríkisendurskoðunar sem gerð eru opinber eiga einkum að nýtast Alþingi við eftirlit þess með framkvæmdarvaldinu og stuðla að umbótum í opinberum rekstri.

5. Ríkisendurskoðun leitast við að upplýsa fjölmiðla og almenning um hlutverk sitt og störf, þ.m.t. niðurstöður endurskoðunar og úttekta. Þannig stuðlar stofnunin að auknu gagnsæi í ríkisrekstrinum.

6. Öflug og vönduð ytri upplýsingamiðlun er ein forsenda þess að Ríkisendurskoðun geti rækt hlutverk sitt og náð árangri.

7. Ríkisendurskoðun hefur frumkvæði að því að miðla upplýsingum um hlutverk sitt og störf.

8. Upplýsingar skulu settar fram á skýru, einföldu og vönduðu nútímamáli. Forðast skal óþarflega sérhæft eða tæknilegt málfar. Leitast skal við að setja upplýsingar fram á myndrænan hátt þar sem því verður við komið.

9. Ríkisendurskoðun leitast sérstaklega við að laga ytri upplýsingamiðlun sína að þörfum eftirtalinna markhópa:

a. Alþingismanna
b. Stjórnenda ráðuneyta og stofnana
c. Fjölmiðla/almennings

10. Um aðgang að gögnum í fórum stofnunarinnar fer samkvæmt ákvæðum 15. gr. laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga. Ósk um aðgang að gögnum sem afhent hafa verið Ríkisendurskoðun skal beint til viðkomandi stjórnvalds eða aðila. Skýrslur, greinargerðir og önnur gögn sem ríkisendurskoðandi hefur útbúið geta fyrst orðið aðgengileg þegar þær hafa verið afhentar Alþingi. Ekki er hægt að kæra ákvarðanir ríkisendurskoðanda um aðgang að gögnum til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

1.2   Framkvæmd

11. Ytri upplýsingamiðlun Ríkisendurskoðunar fer einkum fram með eftirtöldum aðferðum:

a. Skýrslum, greinargerðum og endurskoðunarbréfum, sem að jafnaði eru birt á vefsíðu stofnunarinnar
b. Vefsíðu (www.rikisendurskodun.is)
c. Fréttum og annarri upplýsingagjöf til fjölmiðla
d. Þátttöku í opnum fundum, málþingum og ráðstefnum

12. Upplýsingafulltrúi samhæfir ytri upplýsingamiðlun Ríkisendurskoðunar í samráði við ríkisendurskoðanda og sviðsstjóra. Upplýsingafulltrúi ritstýrir vefsíðu, hefur hönd í bagga með frágangi og útgáfu skýrslna og annarra rita, annast upplýsingagjöf og samskipti við fjölmiðla og skipuleggur þátttöku stofnunarinnar í opnum fundum, málþingum og ráðstefnum.
13. Skjalastjóri afgreiðir beiðnir um aðgang að gögnum hjá Ríkisendurskoðun í samráði við ríkisendurskoðanda og sviðsstjóra.
14. Ríkisendurskoðandi og sviðsstjórar koma fram fyrir hönd stofnunarinnar í fjölmiðlum. Ríkisendurskoðandi getur ákveðið undantekningar frá þessari reglu.

1.3 Árangursmat

15. Ríkisendurskoðun kannar reglulega hversu vel ytri upplýsingamiðlun hennar mætir þörfum markhópanna, m.a. með viðhorfskönnunum. Stofnunin setur sér á hverjum tíma mælanleg markmið um árangur á þessu sviði, sbr. stefnu- og skorkort.

2. Innri upplýsingamiðlun

2.1 Forsendur og markmið

16. Öflug og vönduð innri upplýsingamiðlun er ein forsenda þess að Ríkisendurskoðun geti rækt hlutverk sitt og náð árangri.
17. Innri upplýsingamiðlun styður við framkvæmd stefnukorts (mannauðs- og verklagsmarkmiða) og starfsmannastefnu.
18. Markmið innri upplýsingamiðlunar er að starfsmenn Ríkisendurskoðunar hafi á hverjum tíma glöggar upplýsingar um störf hennar, helstu verkefni og annað það sem tengist stofnuninni með beinum hætti.
19. Innri upplýsingamiðlun fer einkum fram með eftirtöldum aðferðum:

a. Innri vefsíðu (almennur hluti og vefsvæði einstakra sviða/stoða)
b. Starfsmannafundum
c. Sviðsfundum

20. Starfsmenn Ríkisendurskoðunar hafa frumkvæði að því að afla sér upplýsinga sem máli skipta fyrir störf þeirra, m.a. upplýsingum sem vistaðar eru í skjalakerfi stofnunarinnar.

2.2   Aðferðir og framkvæmd

21. Ríkisendurskoðandi og upplýsingafulltrúi annast innri upplýsingamiðlun sem beinist jafnt að öllum starfsmönnum.
22. Sviðsstjórar og yfirmenn stoða stýra innri upplýsingamiðlun sem beinist sérstaklega að starfsmönnum þeirra sviða/stoða.

2.3   Árangursmat

23. Ríkisendurskoðun kannar reglulega hversu vel innri upplýsingamiðlun hennar mætir þörfum starfsmanna, m.a. með viðhorfskönnunum.