Umbætur á stjórn viðamikilla verkefna

Ríkisendurskoðun ítrekar ekki ábendingu sína til forsætisráðuneytis og fjármála- og efnahagsráðuneytis um að umfangsmiklum verkefnum sé stýrt á viðunandi hátt. Stofnunin telur að ráðuneytin hafi unnið markvisst að úrbótum á þessu sviði auk þess sem ný lög um opinber fjármál kveða á um breytt vinnubrögð stjórnvalda við bæði stefnumörkun og áætlanagerð.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar Mótvægisaðgerðir vegna samdráttar þorskveiðiheimilda (2013) var þeirri ábendingu beint til ráðuneytanna að þau haldi vel utan um kostnaðarsamar og viðamiklar aðgerðir sem þau ýta úr vör. Setja þurfi fram skýr markmið, tryggja að í upphafi liggi fyrir hvernig árangur skuli metinn og skilgreina ábyrgð aðgerðanna í heild og einstakra verkefna sem þeim tilheyra.

Í nýrri eftirfylgniskýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að Stjórnarráðið hefur undir forystu forsætisráðuneytis innleitt handbók um verkefnastjórnun og gefið út handbók um opinbera stefnumótun og ætlunargerð. Einnig tók stefnuráð Stjórnarráðsins til starfa í febrúar 2015 en hlutverk þess er að vera samráðsvettvangur innan stjórnsýslunnar til að efla og bæta getu hennar til stefnumótunar og áætlanagerðar. Þá hafa námskeið á sviði verkefnastjórnunar og stefnumótunar verið á dagskrá Stjórnarráðsskólans frá árinu 2010. Að lokum vekur Ríkisendurskoðun athygli á að í nýjum lögum nr. 123/2015 um opinber fjármál er mælt fyrir um hvernig skuli staðið að stefnumörkum og áætlanagerð með skýrari hætti en áður. Stofnunin hvetur bæði ráðuneytin til að nýta sér áfram viðeigandi aðferðir verkefnastjórnunar og huga að gæðum þeirrar stefnumótunar sem þau koma að.