Unnið að miðlægu innkaupakerfi ríkisins

Fjármála- og efnahagsráðuneyti undirbýr nú notkun miðlægs innkaupakerfis sem gæti tryggt markvissa stjórnun og veitt upplýsingar um öll innkaup ríkisaðila. Því ítrekar Ríkisendurskoðun ekki fyrri ábendingar sínar til ráðuneytisins í nýrri eftirfylgniskýrslu um framkvæmd og utanumhald rammasamninga.

Þar sem miðlægt innkaupakerfi hefur ekki enn verið tekið í notkun eru takmarkaðar upplýsingar til um innkaup ríkisins samkvæmt rammasamningum. Ríkisendurskoðun hvetur því ráðuneytið til að ljúka innleiðingu þessa kerfis sem fyrst. Ríkisendurskoðun telur að ná megi fram verulegum ávinningi með því að veita öllum innkaupum ríkisins í samræmdan rafrænan farveg, frá upphafi til loka hverra viðskipta.

Fjármála- og efnahagsráðuneyti hefur tekið undir fyrri ábendingar Ríkisendurskoðunar sem settar voru fram 2011 og 2014, um að óviðunandi sé að stjórnvöld þurfi að treysta á upplýsingar frá söluaðilum við mat á árangri rammasamninga. Starfshópur á vegum ráðuneytisins hefur unnið greiningu á vöru- og þjónustukaupum ríkisins og skoðað leiðir til að gera innkaupaaðferðir markvissari og árangursríkari og er nú unnið að innleiðingu tillagna hópsins.