Unnið að viðbrögðum við ábendingum um þjónustu við fatlaða

Stjórnvöld vinna að því að bregðast við ábendingum Ríkisendurskoðunar frá árinu 2010 um þjónustu við fatlað fólk. Að mati stofnunarinnar er þessi vinna í ásættanlegum farvegi. Ríkisendurskoðun gagnrýnir hvernig staðið var að kaupum og innleiðingu á upplýsingakerfi sem átti að nýtast við framkvæmd og eftirlit með þjónustu við fatlaða á landsvísu. Velferðarráðneytið fer með yfirstjórn málefna fatlaðs fólks en skipulagning og framkvæmd þjónustu við þennan hóp er í höndum sveitarfélaga. Árið 2010 birti Ríkisendurskoðun skýrslu þar sem bent var á ýmis atriði sem betur mættu fara í skipulagi og stjórnun málaflokksins. Ekki lægi fyrir form­lega samþykkt heildarstefna um málaflokkinn og fjárveitingar til þjón­ustu­aðila tækju ekki mið af lögbundnu mati á þjónustuþörf. Þá væri kostnaður vegna þjónustunnar ekki bókaður með sam­bæri­legum hætti hjá þjónustuaðilum, sem m.a. hamlaði raun­hæf­um sam­an­­burði einstakra út­gjalda­liða. Enn fremur fylgdu megin­þættir í fag­legri starf­semi þjón­­ustu­­­aðila ekki samræmdum verk­lags­­reglum og því væri óvíst að þjón­usta þeirra væri jöfn að gæðum. Loks væri eftirlit ráðuneytisins (sem þá hét félags- og tryggingamálaráðuneyti) með starf­semi þjón­ustu­aðila ófull­nægj­­andi. Það hefði t.d. ekki safnað samræmdum upp­lýs­ing­um um starfsemi þeirra frá árinu 2004 og því væri óljóst hvort jafnræði ríkti meðal þjónustuþega.
Ríkisendurskoðun hvatti ráðuneytið til að:

  • Ljúka stefnu­mótun fyrir mála­flokk­­inn
  • Miða fjárveitingar við þjón­ustuþörf

 

  • Sam­ræma þjón­ustu­mat
  • Gera rekst­rar­upp­lýs­ingar aðgengilegar
  • Gera upplýs­inga­kerf­i um þjónustuna (Grósku) að virku stjórn­tæki
  • Tryggja samræmi í þjónustunni milli þjónustuaðila og landshluta
  • Endurskoða starfsemi svæðis­ráða og trún­að­armanna
  • Móta reglur um hámarksbiðtíma eftir þjón­ustu
  • Tryggja að hægt verði að meta ávinn­ing af fyrirhuguðum flutningi mála­flokksins til sveitarfélaga


Í nýrri eftirfylgniskýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að stjórnvöld vinna nú að því að bregðast við átta af þessum níu ábendingum. Að mati Ríkisendurskoðunar er þessi vinna í ásættanlegum farvegi og því eru ábendingarnar ekki ítrekaðar.
Stofnunin fellur hins vegar frá einni ábendingu, þ.e. um upplýsingakerfið Grósku. Ráðuneytið hafði forgöngu um hönnun þessa kerfis árið 2004 en það átti m.a. að tryggja samræmdar upplýsingar um þjónustu við fatlaða á landsvísu. Hins vegar hafa fæst sveitarfélög kosið að nýta það, m.a. vegna þess að þau höfðu þegar tekið önnur kerfi í notkun þegar þjónustan var færð til þeirra árið 2011. Ríkisendurskoðun gagnrýnir hvernig staðið var að kaupum á kerfinu og innleiðingu þess. Kerfið var ekki boðið út þrátt fyrir skýrar reglur þar að lútandi. Þá fór það langt fram úr kostnaðar­áætlun enda fjölmargir við­aukar við upphaflegan samning sem bendir til þess að þarfa­greiningu hafi verið ábóta­vant.