Unnið er að því að greina ávinning af flutningi þjónustustofnana undir eitt þak

Velferðarráðuneytið vinnur að því að greina mögulegan ávinning af því að flytja undir eitt þak Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, Heyrnar- og talmeinastöð Íslands, TMF Tölvumiðstöð og Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga. Þetta kemur fram í nýrri eftirfylgniskýrslu Ríkisendurskoðunar.

Árið 2013 hvatti Ríkisendurskoðun velferðarráðuneytið til að meta faglegan og fjárhagslegan ávinning af flutningi þriggja ríkisstofnana sem þjóna einstaklingum með skerta færni í sameiginlegt húsnæði. Um er að ræða Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, Heyrnar- og talmeinastöð Íslands og Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga. Einnig taldi Ríkisendurskoðun rétt að kanna hvort ávinningur fælist í því að TMF Tölvumiðstöð og Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra flyttust undir eitt þak með fyrrnefndum stofnunum. Samskiptamiðstöðin heyrir undir mennta- og menningarmálaráðuneytið og hvatti Ríkisendurskoðun það til að taka virkan þátt í þessari athugun.

Í nýrri eftirfylgniskýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að nú þremur árum síðar er unnið að því að greina mögulegan ávinning af flutningi umræddra stofnana í sameiginlegt húsnæði, þ.e. allra nema Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra. Viðræður eru í gangi um að fella hana undir Háskóla Íslands. Ríkisendurskoðun telur málið vera í ásættanlegum farvegi og ítrekar því ekki ábendingar sínar.