Utanríkisráðuneyti taki afstöðu til tillagna um útflutningsaðstoð

Starfshópur á vegum utanríkisráðherra hefur skilað tillögum um stefnumörkun og skipulag útflutningsaðstoðar. Ríkisendurskoðun hvetur ráðuneytið til að taka sem fyrst afstöðu til þeirra.Árið 2009 birti Ríkisendurskoðun skýrslu um útflutningsaðstoð ríkisins og framlög þess til landkynningar. Í skýrslunni voru settar fram fimm ábendingar til utanríkisráðuneytis um úrbætur á skipulagi og stjórnun málaflokksins. Þremur árum síðar kannaði Ríkisendurskoðun hvernig ráðuneytið hefði brugðist við þeim. Niðurstaðan varð sú að ítreka eina ábendingu. Í henni fólst hvatning til ráðuneytisins um að halda nákvæmt kostnaðarbókhald um verkefni sín á sviði útflutningsaðstoðar og landkynningar þannig að raunkostnaður þeirra lægi fyrir á hverjum tíma. Ríkisendurskoðun benti á að ráðuneytið gæti í þessu skyni notað verkbókhald sem er hluti fjárhags- og mannauðskerfis ríkisins (Orra).
Í nýrri eftirfylgniskýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að ráðuneytið hafi enn ekki innleitt kostnaðarbókhald, eins og Ríkisendurskoðun hvatti til bæði árið 2009 og 2012. Ekki hafi heldur verið mótuð heildstæð stefna um útflutningsaðstoð og landkynningu sem þó hafi verið í bígerð árið 2012.
Fram kemur að utanríkisráðherra hafi árið 2013 skipað starfshóp til að endurskoða fyrirkomulag útflutningsaðastoðar og landkynningar. Í greinargerð hópsins sé að finna ýmsar tillögur um úrbætur á stefnumörkun, skipulagi og kostnaðargreiningu málaflokksins. Ríkisendurskoðun hvetur ráðuneytið til að taka sem fyrst skýra afstöðu til þessara tillagna og hrinda nauðsynlegum úrbótum í framkvæmd.