Útdráttur úr ársreikningum stjórnmálasamtaka 2009

Ríkisendurskoðun hefur birt útdrátt úr ársreikningum stjórnmálasamtaka fyrir árið 2009 þar sem m.a. koma fram upplýsingar um framlög til þeirra frá lögaðilum. Aðeins er birtur útdráttur úr ársreikningum fjögurra samtaka en stofnuninni hafa enn ekki borist reikningar frá fleirum.Samkvæmt lögum um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra skulu stjórnmálasamtök árlega skila Ríkisendurskoðun reikningum sínum sem í kjölfarið skal birta útdrátt úr þeim. Þar eiga að koma fram upplýsingar um heildartekjur og gjöld, uppruna tekna og helstu stærðir í efnahagsreikningi. Þá skal greina sérstaklega frá afsláttum sem viðkomandi samtök hafa fengið frá markaðsverði vöru eða þjónustu. Enn fremur skal birta nöfn allra lögaðila sem veitt hafa framlög til starfseminnar.
Ríkisendurskoðun hefur nú í samræmi við fyrrnefnd lög birt hér á síðunni útdrátt úr reikningum Borgarahreyfingarinnar, Hreyfingarinnar, Samtaka fullveldissinna og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs fyrir árið 2009. Stofnuninni hafa ekki enn borist reikningar frá m.a. Framsóknarflokknum, Frjálslynda flokknum, Samfylkingunni og Sjálfstæðisflokknum. Útdráttur úr reikningum stjórnmálasamtaka sem enn eiga eftir að skila verður birtur jafnóðum og þeir berast og eftir að Ríkisendurskoðun hefur farið yfir þá.
Upphaflega stóð til að birta útdráttinn sl. haust en það tókst ekki þar sem aðeins ein samtök höfðu skilað reikningi þegar skilafrestur rann út 1. október.
Með breytingu á lögum um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda, sem nýlega tók gildi, munu slík samtök ekki geta fengið framlög úr ríkissjóði nema hafa áður skilað reikningum sínum til Ríkisendurskoðunar. Stofnunin bindur vonir við að heimtur ársreikninga frá stjórnmálasamtökum muni batna í kjölfar þessarar lagabreytingar.