Útdráttur úr reikningum stjórnmálaflokkanna 2008

Ríkisendurskoðun hefur birt útdrátt úr ársreikningum stjórnmálaflokkanna fyrir árið 2008 þar sem m.a. koma fram upplýsingar um fjárframlög til þeirra frá lögaðilum. Tveir flokkar hafa ekki skilað stofnuninni ársreikningum.Samkvæmt lögum um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra, sem sett voru árið 2006, skulu stjórnmálasamtök árlega skila Ríkisendurskoðun reikningum sínum sem í kjölfarið skal birta útdrátt úr þeim. Þar eiga að koma fram upplýsingar um heildartekjur og gjöld, uppruna tekna og helstu stærðir í efnahagsreikningi. Þá skal greina sérstaklega frá afsláttum sem samtök hafa fengið frá markaðsverði vöru eða þjónustu. Enn fremur skal birta nöfn allra lögaðila sem veitt hafa framlög til starfseminnar.

Ríkisendurskoðun hefur nú í samræmi við fyrrnefnd lög birt á heimasíðu sinni, www.rikisend.is, útdrátt úr ársreikningum stjórnmálaflokkanna fyrir árið 2008. Um er að ræða útdrátt úr reikningum Framsóknarflokksins, Íslandshreyfingarinnar – lifandi lands, Samfylkingarinnar, og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Reikningar hafa ekki borist frá Frjálslynda flokknum og Sjálfstæðisflokknum.

Upphaflega stóð til að birta útdráttinn sl. haust en ekki varð af því þar sem reikningar flokkanna bárust ekki fyrr en undir árslok og sumir ekki fyrr en í byrjun þessa árs. Stofnunin væntir þess að flokkarnir muni skila reikningum sínum fyrir árið 2009 eigi síðar en í september nk. þannig að unnt verði að birta útdrátt úr þeim á haustmánuðum.