Sýslumenn

Starfsemi Útlendingastofnunar

Eftirlit Fiskistofu

Skráning, varðveisla og meðferð lögregluvopna

Eftirfylgniúttektir Ríkisendurskoðunar


 

Sýslumenn

Ástæða úttektar

Sýslumannsembættum var fækkað úr 24 í níu þann 1. janúar 2015 með gildistöku laga nr. 50/2014 um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði. Á sama tíma var löggæsla að fullu aðskilin frá starfsemi sýslumanna. Ríkisendurskoðun telur ástæðu til að kanna hvernig til tókst við sameiningu embættanna og hvort markmiðum með sameiningu hafi verið náð. Þá hafa sýslumannsembættin verið rekin með neikvæðan höfuðstól og farið umfram fjárheimildir sínar allt frá stofnun þeirra þann 1. janúar 2015. Stofnunin telur því einnig ástæðu til að skoða fjárhag embættanna og kanna hvaða leiðir eru mögulegar til úrbóta.

Lýsing

Úttektin er gerð að frumkvæði Ríkisendurskoðunar. Farið verður yfir lög og reglugerðir sem tengjast sýslumönnum, skipulag og fjármál embættanna, verkefni þeirra, verklagsreglur og eftirfylgni. Könnuð verður m.a. skilvirkni embættanna og samhæfing þeirra á milli. Þá verður farið yfir forsendur sameiningar sýslumannsembætta og markmið þeirra, hvernig staðið var að undirbúningi sameiningar og hvaða viðmið voru sett til að mæla árangur.

Markmið

Úttekt Ríkisendurskoðunar er ætlað að skoða árangur af þeim stjórnsýslubreytingum sem gerðar voru í tengslum við sameiningu sýslumannsembættanna og aðskilnaði þeirra frá löggæslu. Einnig að kanna hvort markmiðum sameiningar hafi verið náð og hvernig eftirfylgni var háttað. Þá verður leitast við að svara því hvernig stefnumótun í málefnum sýslumanna sé háttað og hvort starfsemi þeirra sé hagkvæm, skilvirk og árangursrík.

Útgáfa

Ríkisendurskoðun stefnir að því að birta niðurstöður úttektarinnar í opinberri skýrslu til Alþingis í nóvember 2018.

Starfsemi Útlendingastofnunar

Ástæða úttektar

Á þingfundi 24. janúar 2018 samþykkti Alþingi beiðni tíu þingmanna um skýrslu frá Ríkisendurskoðun um starfsemi Útlendingastofnunar. Ríkisendurskoðun ákvað að verða við beiðninni og hefur tilkynnt Alþingi, Útlendingastofnun og dómsmálaráðuneyti um það.

Lýsing

Í samræmi við beiðnina mun úttekt Ríkisendurskoðunar varpa ljósi á starfsemi og rekstur Útlendingastofnunar. Starfshættir stofnunarinnar verða kannaðir og frammistaða hennar metin með hliðsjón af hlutverki hennar samkvæmt lögum nr. 80/2016 um útlendinga. Meðal annars verður horft til málsmeðferðar og þjálfunar starfsfólks.

Markmið

Úttekt Ríkisendurskoðunar er ætlað að draga fram hvernig Útlendingastofnun tekst að uppfylla lögbundið hlutverk sitt og benda á tækifæri til úrbóta út frá hagkvæmni, skilvirkni og árangri.

Útgáfa

Stefnt er að því að birta niðurstöður úttektarinnar í opinberri skýrslu til Alþingis í nóvember 2018.

Eftirlit Fiskistofu

Ástæða úttekta

Í lok febrúar 2018 hóf Ríkisendurskoðun forkönnun stjórnsýsluúttektar á eftirliti Fiskistofu með samþjöppun aflaheimilda. Á þingfundi 8. mars 2018 samþykkti Alþingi síðan beiðni tíu þingmanna um skýrslu frá Ríkisendurskoðun um starfsemi Fiskistofu og eftirlit hennar með vigtun á afla og brottkasti undanfarin fimm ár. Ríkisendurskoðun ákvað að verða við þeirri beiðni en fella hana um leið að áðurnefndum áformum um úttekt á eftirliti Fiskistofu með samþjöppun aflaheimilda.

Lýsing

Ríkisendurskoðun mun leitast við að varpa ljósi á eftirlit Fiskistofu með samþjöppun aflaheimilda, vigtun á afla og brottkasti undanfarin fimm ár. Kannað verður hvernig brugðist er við upplýsingum um brot og hvort ákveðnum vinnureglum er fylgt um rannsókn og eftirfylgni mála. Þá mun Ríkisendurskoðun einnig skoða fjárveitingar til stofnunarinnar undanfarin tíu ár og viðbrögð atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis við athugasemdum um galla á lögum og reglugerðum sem torveldað gætu eftirlit stofnunarinnar.

Markmið

Úttekt Ríkisendurskoðunar er ætlað að leggja mat á árangur af eftirlitshlutverki Fiskistofu og hvort eftirlitið hafi verið framkvæmt í samræmi við lög og reglugerðir.

Útgáfa

Stefnt er að því að birta niðurstöður úttektarinnar í opinberri skýrslu til Alþingis í nóvember 2018.

Skráning, varðveisla og meðferð lögregluvopna

Ástæða úttektar

Árið 2017 birti danska ríkisendurskoðunin stjórnsýsluúttekt á meðferð og varðveislu vopna og skotfæra hjá dönsku lögreglunni og benti á ýmislegt sem betur mætti fara í því sambandi. Hér á landi hefur vopnaeign, vopnageymsla og sýnilegur vopnaburður lögreglu einnig verið nokkuð til umræðu síðastliðin ár, m.a. með hliðsjón af aukinni starfsemi skipulagðra glæpasamtaka og mögulegri hryðjuverkaógn. Ríkisendurskoðun taldi því ástæðu til að gera sambærilega úttekt og gerð var í Danmörku.

Lýsing

Úttektin er unnin að frumkvæði Ríkisendurskoðunar. Fundað verður með fulltrúum dómsmálaráðuneytis og þeirra sem fara með lögregluvald hér á landi (ríkislögreglustjóra, Landhelgisgæslu og einstökum lögregluembættum) og kallað eftir ýmiss konar gögnum frá þessum aðilum. Jafnframt verða starfsstöðvar lögregluembætta víðs vegar um land heimsóttar og kannað hvernig þau standa að skráningu, meðferð og vörslu vopna sem eru í ábyrgð þeirra. Við mat á frammistöðu verður m.a. horft til gildandi laga og reglna sem varða meðferð og notkun valdbeitingartækja og vopna löggæsluyfirvalda og áðurnefndrar skýrsla dönsku ríkisendurskoðunarinnar.

Markmið

Markmið úttektarinnar er að kanna hvernig ríkislögreglustjóri, Landhelgisgæslan og einstök lögregluembætti standa að skráningu, varðveislu og meðferð lögregluvopna og hvort greina megi einhverja annmarka í því sambandi sem gætu haft áhrif á hagkvæmt, skilvirkt og árangursríkt starf lögregluyfirvalda.

Útgáfa

Ríkisendurskoðun stefnir að því að birta niðurstöður úttektarinnar í opinberri skýrslu til Alþingis á haustmánuðum 2018.

Eftirfylgniúttektir Ríkisendurskoðunar

Ástæða úttekta

Í samræmi við alþjóðlega staðla um stjórnsýsluendurskoðun (ISSAI 3100) eru eftirfylgniúttektir snar þáttur í starfsemi Ríkisendurskoðunar og því ferli sem stofnunin fylgir í störfum sínum (sbr. Vinnuferli stjórnsýsluúttekta). Með slíkum úttektum leitast stofnunin við að kanna á hlutlægan og sjálfstæðan hátt afdrif þeirra ábendinga um úrbætur sem hún setur fram í stjórnsýsluúttektum sínum og meta hvort brugðist hafi verið við þeim með viðhlítandi hætti. Í því sambandi er lögð megináhersla á að kanna hvort þeir annmarkar eða veikleikar sem stofnunin vakti athygli á séu enn fyrir hendi.

Lýsing úttekta

Eftirfylgniúttektir eru að jafnaði gerðar um það bil þremur árum eftir að stjórnsýsluúttektum lýkur og felast í sjálfstæðri könnun og mati á þeim upplýsingum og gögnum sem málið varða. Ævinlega er leitað til þess ráðuneytis eða þeirrar stofnunar sem í hlut á og óskað eftir greinargerð þeirra um það hvort ábendingar Ríkisendurskoðunar hafi orðið tilefni til breytinga og þá hverra. Eftir föngum er jafnframt hugað að opinberum gögnum, m.a. tölulegum upplýsingum. Ef þörf krefur er eftirfylgniúttektum fylgt eftir að nýju að þremur árum liðnum.

Markmið úttekta

Með eftirfylgniúttektum sínum leitast Ríkisendurskoðun við að auka áhrif stjórnsýsluúttekta sinna með því að minna á meginniðurstöður þeirra, athugasemdir og ábendingar og ítreka þær eða árétta ef þörf þykir. Um leið eru úttektirnar mikilvægur þáttur í innra gæðaeftirliti og gæðamati Ríkisendurskoðunar, þ.e. eigin mati hennar á því hvort ábendingar stofnunarinnar séu réttmætar og raunhæfar og stuðli að raunverulegum úrbótum. Á þann hátt eru þær liður í að bæta vinnubrögð við stjórnsýsluendurskoðun.

Útgáfa

Niðurstöður Ríkisendurskoðunar og viðbrögð ráðuneytis eða stofnunar við þeim eru settar fram í sérstökum skýrslum sem sendar eru Alþingi og birtar á heimasíðu Ríkisendurskoðunar.