Vanda þarf betur til útboða vegna sjúkraflugs

Ríkisendurskoðun telur að velferðarráðuneytið þurfi að vanda betur til útboða á sjúkraflugi. Skilmálar vegna útboðs á sjúkraflugi árið 2012 tóku mið af faglegum kröfum.Tímafrestir í útboðinu voru hins vegar of knappir og samningstíminn óvenjulega skammur. Þar höfðu hugmyndir um að fela Landhelgisgæslunni að annast almennt sjúkraflug veruleg áhrif. Ekki hefur þó verið metið með fullnægjandi hætti hvort sá möguleiki er hagkvæmur eða framkvæmanlegur. Mikilvægt er að innanríkisráðuneytið kanni það með formlegum hætti. Þá þarf velferðarráðuneytið að móta framtíðarstefnu um sjúkraflutninga.Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar er fjallað um skipulag og framkvæmd sjúkraflugs hér á landi sem velferðarráðuneytið hefur umsjón með og býður út. Landinu er skipt í tvö flugsvæði: Vestmannaeyjasvæði og norðursvæði sem nær frá Vestfjörðum til Hornafjarðar. Ekki er samið um sjúkraflug á Suður- og Vesturlandi en Landhelgisgæslan annast brýna sjúkraflutninga með þyrlum um land allt ef þörf krefur. Á síðustu árum hefur flugfélagið Mýflug hf. annast almennt sjúkraflug hér á landi og gert það út frá Akureyri. Áður var sjúkraflugi í Vestmannaeyjum sinnt með vélum sem gerðar voru út þaðan (til 2010) og á Vestfjörðum að hluta til með vélum frá Ísafirði (til 2008).

Fram kemur að frá því að farið var að gera allt almennt sjúkraflug út frá Akureyri hafi aðbúnaður og öryggi sjúklinga batnað. Akureyri sé miðsvæðis og veður hamli sjaldnar flugi þaðan en frá ýmsum öðrum stöðum á landinu. Einnig hafi viðbragðstími almennt styst, þ.e. sá tími sem líður frá því að beiðni um sjúkraflug berst þar til flugvél er tilbúin til flugtaks. Þá hafi fastur kostnaður vegna starfseminnar lækkað verulega. Hins vegar hafi heildartími, þ.e. sá tími sem líður frá því að beiðni berst þar til sjúklingur er kominn undir læknishendur á áfangastað, lengst að meðaltali á tímabilinu 2005‒2012. Munurinn sé um tvær mínútur fyrir útköll á Vestfjörðum og um 24 mínútur fyrir útköll í Vestmannaeyjum.

Í útboði á síðasta ári var skilmálum breytt að nokkru leyti frá því sem áður var. Bjóða varð í bæði flugsvæðin saman og þjónusta þau frá Akureyri með flugvélum sem hefðu búnað til að jafna þrýsting í farþegarými. Gerðar voru athugasemdir við þessa skilmála en Ríkisendurskoðun telur að stuðst hafi verið við fagleg og fjárhagsleg rök við mótun þeirra.

Fram kemur að velferðarráðuneytið hafi átt í viðræðum við Landhelgisgæsluna um að hún taki yfir almennt sjúkraflug hérlendis. Þessar viðræður hafi dregist á langinn og ekki enn skilað niðurstöðu. Vegna þeirra hafi framkvæmd fyrrnefnds útboðs tafist. Nýr samningur átti að taka gildi 1. janúar 2013 en útboðið var ekki auglýst fyrr en í lok september 2012 og tilboð ekki opnuð fyrr en um miðjan desember. Að mati Ríkisendurskoðunar var óraunhæft að ætla að nýr aðili gæti tekið við þjónustunni með svo skömmum fyrirvara. Þá var samningstíminn óvenju stuttur sem getur takmarkað möguleika bjóðanda á að fá til baka þær fjárfestingar sem hann þarf að stofna til vegna þjónustunnar. Var þessi háttur hafður á til að skapa svigrúm til áframhaldandi viðræðna við Landhelgisgæsluna. Stofnunin hvetur ráðuneytið til að vanda til útboða og tryggja að útboðsferli og samningstími stuðli að jafnræði meðal mögulegra bjóðenda.

Bent hefur verið á að með því að fela Landhelgisgæslunni að annast almennt sjúkraflug megi betur nýta tæki, aðstöðu og mannskap stofnunarinnar. Einnig myndi það styrkja fjárhagslegan grundvöll hennar. Ríkisendurskoðun bendir hins vegar á að slík breyting hefði einnig í för með sér ýmsan kostnað, m.a. þyrfti að útvega Landhelgisgæslunni sérútbúna flugvél. Að mati Ríkisendurskoðunar liggja ekki fyrir nægar upplýsingar til að meta hvort hagkvæmt og framkvæmanlegt er að Landhelgisgæslan annist allt sjúkraflug. Stofnunin hvetur innanríkisráðuneytið til að kanna þann möguleika með formlegum hætti. Samhliða er velferðarráðuneytið hvatt til að móta framtíðarstefnu um sjúkraflutninga hér á landi.