Vel staðið að sameiningu Fasteignaskrár og Þjóðskrár

Ákvörðun um sameiningu var tekin að vel athuguðu máli og markmið hennar voru skýr. Þá er áætlun um framkvæmdina til fyrirmyndar að mati Ríkisendurskoðunar.Fyrr á þessu ári samþykkti Alþingi lög um sameiningu Fasteignaskrár Íslands og Þjóðskrár í eina stofnun, Þjóðskrá Íslands, sem tók til starfa í byrjun júlí. Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að ákvörðun um sameiningu hafi verið tekin að vel athuguðu máli og markmið hennar hafi verið skýr.
Þá segir að áætlun um framkvæmd sameiningarinnar kveði skýrt á um verkefni og áherslur með tímasettum markmiðum. Hún sé nýmæli í samskiptum stofnunar og ráðuneytis og til fyrirmyndar að mati Ríkisendurskoðunar. Hins vegar telur stofnunin brýnt að fyrsta reglulega endurskoðun áætlunarinnar fari fram fyrir lok þessa árs.
Kostnaður við sameiningu Fasteignarskrár og Þjóðskrár er áætlaður um 100 m.kr. Að mati Ríkisendurskoðunar er mikilvægt að hann leiði ekki til þess að stofnunin fari fram úr fjárheimildum. Þá telur Ríkisendurskoðun mikilvægt að unnið verði að því að þróa öfluga vinnustaðamenningu í sameinaðri stofnun.
Þess má geta að skýrslan er liður í stærra verkefni Ríkisendurskoðunar sem miðar að því að meta hvernig áform ríkisstjórnarinnar um að endurskipuleggja opinbera þjónustu ganga eftir. Áður er komin út skýrsla um sameiningu skattumdæma landsins sem fór fram um síðustu áramót.