Viðurlögum verði beitt gagnvart forstöðumönnum stofnana sem fara fram úr fjárheimildum

Ríkisendurskoðun hvetur ráðuneytin til að bregðast við með fullnægjandi hætti þegar sýnt þykir að stofnanir nái ekki að halda rekstri sínum innan fjárheimilda. Beita eigi viðurlögum gagnvart forstöðumönnum stofnana sem fara fram úr heimildum. Ríkisendurskoðun hefur á umliðnum árum margítrekað hvatt ráðuneytin til að bregðast við slíkri framúrkeyrslu í samræmi við lög og reglur. Sú viðleitni hefur ekki skilað tilætluðum árangri.Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga árið 2014 kemur fram að innheimtar tekjur ríkissjóðs námu samtals 665,8 milljörðum króna á árinu en greidd gjöld samtals 629,5 milljörðum króna. Greiðsluafkoman var því jákvæð um 36,3 milljarða króna. Hugtakið greiðsluafkoma horfir til innheimtra tekna og greiddra gjalda á tilteknu tímabili. Hugtakið rekstrarafkoma vísar hins vegar til allra áfallinna tekna og gjalda, hvort sem þau hafa komið til innheimtu/greiðslu eður ei. Upplýsingar um rekstarafkomu ríkissjóðs á árinu 2014 koma fram í ríkisreikningi sem birtur verður á næstunni.
Í fjáraukalögum, sem jafnan eru samþykkt í lok árs, er leitast við að mæta kostnaði stofnana/fjárlagaliða vegna atvika sem ekki voru fyrirséð við setningu fjárlaga. Þetta er gert með því að hækka fjárheimildir þeirra. Fjárheimild stofnunar/fjárlagaliðar samanstendur af útgjaldaheimild samkvæmt fjárlögum og fjáraukalögum að viðbættum millifærslum, verðbótum o.fl. Fram kemur í skýrslunni að í fjáraukalögum ársins 2014 voru fjárheimildir 108 fjárlagaliða hækkaðar, samtals um rúmlega 25 milljarða króna. Engu að síður fóru greidd gjöld 138 liða fram úr heimildum.
Í þessu samhengi bendir Ríkisendurskoðun á að gjöld flestra fjárlagaliða megi áætla í byrjun árs með góðri vissu þannig að haga megi rekstri þeirra í samræmi við fjárlög. Fjáraukalögum sé síðan ætlað að mæta kostnaði vegna ófyrirséðra atvika á árinu, kjarasamninga eða nýrrar löggjafar sem ekki var gert ráð fyrir í fjárlögum. Þetta þýði að sjaldan sé hægt að færa réttmætar ástæður fyrir því að stofnað sé til útgjalda umfram heimildir fjárlaga og fjáraukalaga.
Samkvæmt reglugerð um framkvæmd fjárlaga á ráðuneyti að grípa til ráðstafana ef í ljós kemur að útgjöld undirstofnunar eru meira en 4% umfram áætlun. Ríkisendurskoðun hvetur ráðuneytin til að bregðast við með fullnægjandi hætti þegar sýnt þykir að stofnanir nái ekki að haga rekstri sínum innan fjárheimilda.
Þá telur Ríkisendurskoðun að fari gjöld stofnunar umfram fjárheimildir eigi viðkomandi ráðuneyti að beita forstöðumann hennar viðurlögum í samræmi við lög. Ríkisendurskoðun er þó ekki kunnugt um að slíkum viðurlögum hafi verið beitt gagnvart neinum þeirra forstöðumanna sem stofnuðu til útgjalda umfram heimildir á árinu 2014.
Þess ber að geta að á umliðnum árum hefur Ríkisendurskoðun margítrekað hvatt ráðuneytin til að bregðast við framúrkeyrslu stofnana í samræmi við lög og reglur. Sú viðleitni hefur ekki skilað tilætluðum árangri.
Í skýrslunni eru ráðuneytin einnig hvött til að bæta áætlanagerð vegna ýmissa fjárlagaliða, m.a. liða með lög- eða samningsbundnum útgjöldum sem ekki verður breytt með skömmum fyrirvara. Þá bendir Ríkisendurskoðun á að við afgreiðslu fjárlaga ætti ekki að ganga út frá forsendum um samdrátt gjalda og hækkun á gjaldskrám nema raunverulega sé ætlunin að hrinda slíkum ráðstöfunum í framkvæmd.