Vinnumálastofnun. Stjórnsýsluúttekt

By 9.05.2008 2008 No Comments

Ríkisendurskoðun telur að endurskoða þurfi innra skipulag og stjórnun Vinnumálastofnunar, gera árangursstjórnunarsamning við hana og móta henni faglega stefnu. Þá þarf að einfalda stjórnsýslu þeirra sjóða sem stofnunin hefur umsýslu með og er í því samhengi lagt til að efnt verði til nýrrar stofnunar velferðarmála. Þá er hvatt til að kannað verði með formlegum hætti hvort rétt sé að sameina Vinnumálastofnun og Vinnueftirlit ríkisins í eina öfluga stofnun á sviði vinnumarkaðsmála.
Í stjórnsýsluúttekt sinni á Vinnumálastofnun bendir Ríkisendurskoðun á að breyta þurfi innri stjórnsýslu stofnunarinnar svo að hún endurspegli þau verkefni sem hún sinnir og lagalegar áherslur. Þá valdi núverandi stjórnskipulag meðal annars því að ábyrgð sé ekki nægjanlega skýr og er lagt til að félags- og tryggingamálaráðuneytið meti hvort rétt sé að stofnunin hafi sérstaka stjórn. Einnig eru gerðar alvarlegar athugasemdir við að ráðuneytið hefur hvorki gert árangursstjórnunarsamning við Vinnumálastofnun né sett reglugerð um vinnumarkaðsaðgerðir eins og því ber. Brýnt er úr þessu verði bætt. Þá er nauðsynlegt að stofnuninni verði mótuð fagleg stefna eins og stjórn hennar hefði átt að eiga frumkvæði að.

Í úttekt Ríkisendurskoðunar kemur fram að núverandi stjórnsýsla þeirra sjóða sem Vinnumálastofnun hefur umsjón með er óþarflega flókin og að einföldun hennar gæti bætt þjónustu við bótaþega, aukið skilvirkni og lækkað umsýslukostnað. Lagt er til að stjórnir sjóðanna verði lagðar niður og að umsjón Vinnumálastofnunar með þeim verði flutt til nýrrar stofnunar velferðarmála sem sinni allri umsýslu lífeyris-, sjúkra-, slysa- og vinnumarkaðstengdra trygginga og bóta. Breytt verkaskipting félagsmála- og heilbrigðisráðuneyta gefur einnig sérstakt tilefni til að efnt verði til slíkrar stofnunar.

Ríkisendurskoðun telur að um leið og umsýsla ríkisins með tryggingum og bótum verði sameinuð eigi að sameina greiðslukerfi ríkisins í eitt og veita þangað upplýsingum úr fjölmörgum kerfum sem reikna og ákvarða bætur. Með því móti gefist einstaklingum kostur á einu samræmdu greiðsluyfirliti um bætur og aðrar greiðslur. Þetta muni því bæta þjónustu við þá.

Að lokum leggur Ríkisendurskoðun til að kannað verði með formlegum hætti að sameina Vinnumálastofnun og Vinnueftirlit ríkisins í eina öfluga stofnun á sviði vinnumarkaðsmála. Hvort sem af slíku yrði eða ekki gæti að minnsta kosti verið hagkvæmt að sameina þjónustuskrifstofur Vinnumálastofnunar og umdæmisskrifstofur Vinnueftirlitsins í eina þjónustuskrifstofu vinnumarkaðsmála á hverjum stað. Verði hins vegar af sameiningu stofnananna tveggja mætti samnýta samráðsvettvang málaflokkanna sem þær sinna: Vinnumarkaðsaðgerða og vinnuverndar. Lagt er til að skoðaðir verði í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins kostir og gallar þess að stofna eitt fagráð vinnumála í stað stjórna stofnananna. Slíkt ráð mætti einnig virkja sem öflugan samráðsvettvang fyrir vinnumarkaðsmál.