Vísbendingar um fjármálamisferli

By 19.05.2006 2006 No Comments

Ríkisendurskoðun hefur sent frá sér leiðbeiningarritið „Vísbendingar um fjármálamisferli“ (maí 2006). Því er ætlað að auka þekkingu og skilning á helstu einkennum fjármálamisferla og hvað sé líklegt til að koma í veg fyrir eða upplýsa slík mál innan stofnana og fyrirtækja ríkisins. Ritið tekur annars vegar mið af reynslu Ríkisendurskoðunar við að fást við mál af þessu tagi á undanförnum árum og hins vegar af erlendum könnunum á þessu sviði.
Í ritinu eru fjármálamisferli skilgreind sem ýmiss konar ólögmætt athæfi þar sem brotamaður hefur það að markmiði að komast yfir fé eða einhver önnur verðmæti í eigu annarra. Sem dæmi má nefna skjalafals, fjárdrátt, fjársvik, umboðssvik, ólöglegt samráð og mútur. Litlar stofnanir eða fyrirtæki eru yfirleitt viðkvæmari fyrir slíkum málum en stór fyrirtæki, þar sem innra eftirlit þeirra er oftast ófullkomnara, og sömuleiðis verður tap þeirra hlutfallslega meira.

Fjármálamisferli verða aldrei útilokuð fullkomlega. Mikilvægt er hins vegar að reyna að draga sem mest úr þeim með fyrirbyggjandi aðgerðum, svo sem góðu innra eftirliti og siðareglum. Þessi leið er tvímælalaust heppilegri fyrir starfsanda á vinnustað en stöðug leit að hugsanlegu misferli og sú tortryggni sem henni fylgir óhjákvæmilega. Ljóst er líka að langflest starfsfólk er heiðarlegt og samviskusamt og reyndar er einungis lítill hluti þess í aðstöðu til að misfara með fé stofnunar eða fyrirtækis.

Reynslan hefur sýnt að fæstir þeirra sem misfara með fé stofnana eða fyrirtækja hafa áður komið við sögu slíkra mála. Vissir einstaklingar virðast þó líklegri til þessa en aðrir, en þó því aðeins að fyrir hendi séu tilteknir áhættuþættir, þ.e. hvati til brota, tækifæri og hugarfar til að réttlæta verknaðinn. Ríkisendurskoðun bendir á mikilvægi þess að draga sem mest úr slíkum þáttum. Sérstaklega þarf að standa vel að ráðningu þeirra starfsmanna sem hafa aðgang að fjármunum eða umsjón með þeim. Þá er virkt innra eftirlit mikilvæg leið til að stemma stigu við misferlum. Að lokum er talið að siðareglur minnki líkur á því að starfsfólk geti réttlætt fyrir sjálfu sér ólögmæta meðferð fjár.

Í riti Ríkisendurskoðunar er bent á að yfirleitt sé einhver í aðstöðu til að koma auga á fjármálamisferli innan stofnana eða fyrirtækja og tilgreind eru ýmis atriði sem þykja geta gefið vísbendingar um slík brot. Sömuleiðis er bent á hvernig heppilegast sé að standa að verki ef grunur vaknar um fjármálamisferli, bæði til að tryggja að ábendingar um þau berist réttum aðila og til að koma í veg fyrir að tilhæfulausar aðdróttanir skaði starfsfólk.