Yfirlýsing frá ríkisendurskoðanda: Dylgjum vísað á bug

Í umfjöllun fjölmiðla að undanförnu hefur verið gefið í skyn að fjölskyldutengsl mín við annars vegar fyrrverandi starfsmann Skýrr og hins vegar núverandi starfsmann fjármálaráðuneytisins hafi eitthvað með það að gera að dregist hefur að ljúka úttekt Ríkisendurskoðunar varðandi fjárhagsupplýsingakerfi ríkisins. Ég vísa þessum dylgjum algerlega á bug. Rétt er að bróðir minn, Þórhallur Arason, er yfirmaður þeirrar skrifstofu fjármálaráðuneytisins sem annast umsýslu eigna ríkisins, þ. á m. hugbúnaðarkerfa í eigu þess. Þegar tilboð í nýtt fjárhagsupplýsingakerfi fyrir ríkið lágu fyrir árið 2001 og ljóst var að Skýrr væri meðal bjóðenda, ákvað Þórhallur hins vegar að víkja sæti í nefnd þeirri sem sá um að meta tilboðin þar sem annar bróðir okkar, Atli Arason, var á þessum tíma yfirmaður sölu- og markaðssviðs Skýrr. Þórhallur kom með öðrum orðum ekki að ákvörðun um kaup á kerfinu. Eftir að gengið var frá kaupsamningi annaðist sérstakt svið innan Skýrr innleiðingu á kerfinu. Atli kom ekki að henni. Hann starfaði hjá fyrirtækinu til ársins 2006 en rauf þá öll tengsl við það. Ég var skipaður í embætti ríkisendurskoðanda sumarið 2008.

Sveinn Arason
ríkisendurskoðandi