17.05.2018
Bæta þarf verklag og auka kröfur við gerð ívilnunarsamninga um nýfjárfestingar, mat á umhverfisáhrifum framkvæmda og útgáfu starfsleyfa.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar, Kísilverksmiðja Sameinaðs Sílikons hf. – Aðkoma og eftirlit stjórnvalda, sem unnin var að beiðni Alþingis. Í skýrslunni er alls sjö ábendingum beint til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, umhverfis- og auðlindaráðuneytis, Skipulagsstofnunar, Umhverfisstofnunar og Vinnueftirlits ríkisins.
Mikilvægt er að stofnanir ríkisins sem koma að útgáfu starfsleyfa og gerð ívilnunarsamninga geti sannreynt getu þeirra sem sækjast eftir því að starfrækja mengandi iðnað til að uppfylla skilyrði slíks rekstrar og sanngildi þeirra upplýsinga sem þeir leggja fram. Kísilverksmiðja Sameinaðs Sílikons var ekki fullbúin þegar framleiðsla hófst og starfaði aldrei í samræmi við mat á umhverfisáhrifum, starfsleyfi og markmið samnings um ívilnanir. Ríkisendurskoðun telur brýnt að umhverfis- og auðlindaráðuneyti kanni, í samstarfi við Umhverfisstofnun og önnur stjórnvöld, hvort herða þurfi eða skýra kröfur við útgáfu starfsleyfa vegna starfsemi sem getur haft mengun í för með sér.
Ekki var gert ráð fyrir lyktarmengun við mat á umhverfisáhrifum kísilverksmiðjunnar og er sú mengun sem kom fram ekki að fullu skýrð, utan hvað ljósbogaofn verksmiðjunnar var óstöðugur. Ríkisendurskoðun telur mikilvægt að Skipulagsstofnun kanni hvort og þá hvernig taka megi á hugsanlegum frávikum í rekstri við mat á umhverfisáhrifum framkvæmda, sérstaklega þegar nálægð við íbúðabyggð er mikil. Þá telur Ríkisendurskoðun að Skipulagstofnun hefði átt að taka fram í áliti sínu að ekki var brugðist við athugasemdum um skort á reykháfum. Ríkisendurskoðun hvetur til þess að kannað verði hvort gera eigi strangari kröfur við mat á umhverfisáhrifum.
Auk lyktarmengunar voru sjónræn áhrif önnur og meiri en gert hafði verið ráð fyrir. Þá var bygging kísilverksmiðjunnar ekki í samræmi við gildandi svæðisskipulag. Ríkisendurskoðun telur þetta gagnrýnivert og bendir á að ástæða sé til að kanna hvort Skipulagsstofnun þurfi skýrari og beinskeyttari úrræði þegar framkvæmdir eru ekki samræmi við mat á umhverfisáhrifum.
Ríkisendurskoðun telur að vanda þurfi betur til greininga sem ákvarðanir um veitingu ívilnana byggja á. Við gerð ívilnunarsamnings við Sameinað Sílikon var alfarið byggt á framlögðum gögnum og upplýsingum umsækjenda. Við afgreiðslu á umsókn um ívilnun lágu ekki fyrir skýrar upplýsingar um eignarhald og stjórnendur. Ívilnunarsamningur við Sameinað Sílikon gerði ráð fyrir að hámark styrkhæfrar ríkisaðstoðar, fyrir utan mögulega þjálfunarstyrki starfsfólks, yrði 484,8 m.kr.