Lög, reglur o.fl.

Lög

Ríkisendurskoðandi starfar samkvæmt lögum nr. 46/2016 um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga.

  • Lög nr. 46/2016, um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga
  • Lög nr. 19/1988, um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá
  • Lög nr. 36/1993, um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu
  • Lög nr. 162/2006, um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra

Að auki er ríkisendurskoðanda falin verkefni samkvæmt ýmsum sérlögum um stofnanir ríkisins en þar er yfirleitt um að ræða endurskoðun eða skyld verkefni. Slík ákvæði eru því í raun sett til að hnykkja á því sem segir í lögum um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga

Við fjárhagsendurskoðun taka starfsmenn mið af lögum nr. 94/2019 um endurskoðendur og endurskoðun og eftir atvikum alþjóðlegum endurskoðunar- og reikningsskilastöðlum. Þá hafa starfsmenn hliðsjón af stefnuyfirlýsingu og stöðlum Alþjóðasamtaka ríkisendurskoðana (INTOSAI) og fylgja siðareglum Ríkisendurskoðunar.


Verkferlar

Ríkisendurskoðandi hefur sett sér ýmsa verkferla m.a. um úttektir og endurskoðanir. Helstu verkferla embættisins er að finna hér.

1. Ábendingar  
2. Ársreikningar kirkjugarða  
3. Ársreikningur sjóða  
4. Beiðni frá Alþingi  
5. Breytingar skipulagsskrá  
6. Eftirlit með fjármálum stjórnmálasamtaka  
7. Eftirlit með frambjóðendum í persónukjöri  
8. Endurskoðun ríkisreiknings  
9. Endurskoðun stofnanna  
10. Framkvæmd fjárlaga  
11. Gagnabeiðnir  
12. Gagnagreiningar  
13. Kaup/sala eigna  
14. Lok endurskoðunar og samþykktarferli  
15. Niðurlagning sjóða  
16. Ný skipulagsskrá  
17. Samþykktarferill afskrifta í A-hluta stofnunum  
18. Staðfestingarverkefni  
19. Stjórnsýsluúttektir undirbúningur  
20. Stjórnsýsluúttektir úttekt og greining  
21. Umsagnir um frumvarpsdrög  
22. Úttektir upplýsingakerfa  
23. Veðheimildir staðfestra sjóða og stofnanna  
24. Vernd uppljóstrara  
25. Yfirlit um ársreikninga  

Siðareglur

Siðareglur Ríkisendurskoðunar fela í sér þau siðferðilegu gildi sem starfsmenn stofnunarinnar og aðrir sem koma fram í umboði hennar skulu hafa að leiðarljósi í störfum sínum. Markmið reglnanna er að stuðla að fagmennsku starfsmanna, óhæði, heilindum, óhlutdrægni og trúverðugleika og efla þannig sjálfstæði Ríkisendurskoðunar og traust almennings á starfsemi hennar.

Reglurnar byggja á siðareglum Alþjóðasamtaka ríkisendurskoðana (INTOSAI) frá árinu 1998 en hafa verið lagaðar að starfsemi Ríkisendurskoðunar og lögum nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Ríkisendurskoðandi og aðrir yfirmenn stofnunarinnar bera ábyrgð á að siðareglum þessum sé framfylgt en allir starfsmenn skulu leitast við að starfa í anda þeirra og samþætta þær daglegum störfum sínum. Komi upp siðferðileg álitaefni skulu starfsmenn leita álits næsta yfirmanns eða ríkisendurskoðanda. Starfsmenn sem tilheyra fagstéttum sem hafa sett sér siðareglur skulu einnig starfa í anda þeirra. Reglurnar skulu endurskoðaðar árlega.

Heilindi

Ríkisendurskoðun leggur áherslu á að starfsmenn hennar sinni störfum sínum af heilindum, trúmennsku og heiðarleika og með almanna­hagsmuni í huga. Þeir skulu gæta kurteisi, lipurðar og réttsýni í framkomu sinni við viðskiptavini sína, samstarfsfélaga og aðra sem þeir hafa samskipti við vegna starfa sinna. Þá skulu þeir koma þannig fram jafnt í starfi sínu sem utan þess að þeir verði sjálfum sér ekki til vansæmdar og rýri með þeim hætti ímynd og trúverðugleika Ríkisendurskoðunar og gildi starfseminnar sem þar fer fram.

Starfsmenn Ríkisendurskoðunar skulu gæta trúnaðar um það sem þeir fá vitneskju um í starfi og leynt skal fara samkvæmt lögum, fyrirmælum yfirmanna eða eðli máls. Þeir skulu forðast að veita þriðja aðila upplýsingar um það sem fram kemur við endurskoðun eða eftirlit ef það samrýmist ekki lögmætum starfsskyldum Ríkisendurskoðunar eða tilgangi verkefnisins. Þeim er jafnframt óheimilt að nýta upplýsingar sem þeir afla í störfum sínum, t.d. fjárhagsupplýsingar, til hagsbóta fyrir sjálfa sig eða aðra eða þannig að það skaði starfsemi þeirrar stofnunar sem í hlut á. Starfsmenn skulu gæta þagmælsku þótt þeir láti af störfum

Óhæði

Starfsmenn Ríkisendurskoðunar skulu vera óháðir ráðuneytum og stofnunum sem þeir hafa fagleg samskipti við. Þeir skulu ekki taka þátt í stjórn­málum á opinberum vettvangi eða eiga setu í stjórn stofnana eða fyrirtækja ríkisins. Þá skulu þeir varast að þiggja gjafir eða nýta sér fríðindi frá þeim sem eiga hagsmuna að gæta vegna starfa þeirra. Starfsmenn skulu upplýsa yfirmenn sína skapist hætta á hagsmunaárekstrum eða öðru sem skerðir óhæði þeirra og óhlutdrægni.

Starfsmenn skulu fara vel með vald sitt og gæta þess að persónulegar skoðanir þeirra á einstaklingum, stofnunum eða viðfangsefnum hafi ekki áhrif á umfjöllun sína og niðurstöður. Þeir skulu virða jafnræði og forðast mismunun en gæta þess jafnframt að láta skoðanir annarra ekki stýra eigin afstöðu og ályktunum.

Fagmennska

Starfsmenn Ríkisendurskoðunar skulu í störfum sínum fylgja viðeigandi aðferðum, vinnureglum, siðareglum og stöðlum. Þeir skulu kynna sér mikilvægustu lög, reglur og aðferðir við endurskoðun, reikningsskil og stjórnun stofnana og fyrirtækja ríkisins. Sömuleiðis skulu þeir kynna sér stjórnarskrá Íslands og aðrar grundvallarreglur íslenska ríkisins.

Starfsmenn skulu byggja greiningu sína, niður­stöður og ábendingar á því sem þeir vita réttast og sannast og er í samræmi við ríkjandi lög og aðrar lögmætar ákvarðanir stjórnvalda. Umfjöllun skal standast viðurkenndar kröfur um nákvæmni og áreiðan­leika. Hún skal vera málefnaleg og óhlutdræg og einungis byggð á gögnum sem aflað hefur verið og þykja skipta máli. Jafnan skal gæta sanngirni, jafnræðis og meðalhófs í ályktunum.

Starfsmenn skulu upplýsa næsta yfirmann eða ríkisendurskoðanda verði þeir varir við óreiðu, spillingu eða misnotkun í störfum sínum enda sé tryggt að þeir muni ekki gjalda fyrir.

Starfsmenn skulu halda við faglegri þekkingu sinni og hæfni með endurmenntun og tryggja þannig færni sína til að takast á við þau verkefni sem þeim eru falin hverju sinni.

Ríkisendurskoðun, janúar 2013.


Þingleg meðferð skýrslna

1. gr.
Skýrslur Ríkisendurskoðunar og greinargerðir, skv. 3., 7. og 9. gr., sbr. og 11. gr., laga um stofnunina, nr. 86/1997, með síðari breytingum, skulu sendar forseta Alþingis með bréfi.

2. gr.
Fjalli skýrslan um framkvæmd fjárlaga, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 13. gr. þingskapa eða um endurskoðun ríkisreiknings sendir forseti Alþingis skýrsluna til umfjöllunar fjárlaganefndar. Aðrar skýrslur sendir forseti til umfjöllunar stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, sbr. 8. tölul. 1. mgr. 13. gr. þingskapa.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fjallar um starfsskýrslu Ríkisendurskoðunar.

3. gr.
Nefnd, sem fær skýrslu til umfjöllunar, tekur ákvörðun um málsmeðferð, þar á meðal um hverja hún boðar til fundar við sig um efni hennar eða óskar skriflegra umsagna.

Ríkisendurskoðandi á rétt á að koma á fund nefndar sem fjallar um skýrslu Ríkisendurskoðunar ef hann óskar þess.

4. gr.
Nefnd, sem fær skýrslu Ríkisendurskoðunar til meðferðar, getur óskað eftir umsögn annarrar fastanefndar um efni hennar eða um tiltekna efnisþætti hennar, innan þess frests sem tiltekinn er.

5. gr.
Nefnd getur skilað áliti um skýrslu Ríkisendurskoðunar ef hún telur ástæðu til, sbr. 2. máls. 31. gr. þingskapa.

6. gr.
Nefnd getur í áliti sínu til þingsins gert tillögu til þingsályktunar um efni skýrslunnar, sbr. 2. mgr. 26. gr. þingskapa.

7. gr.
Reglur þessar taka þegar gildi og falla þá um leið úr gildi reglur forsætisnefndar um þinglega meðferð skýrslna Ríkisendurskoðunar frá 12. febrúar 2008.

Samþykkt á fundi forsætisnefndar 27. janúar 2012.


Staðlar Alþjóðasamtaka

Í störfum sínum tekur Ríkisendurskoðun mið af stefnuyfirlýsingu Alþjóðasamtaka ríkisendurskoðana (INTOSAI) frá árinu 1977 sem kennd er við Líma, höfuðborg Perú. Þar er m.a. fjallað um sjálfstæði ríkisendurskoðana, tengsl þeirra við þing og framkvæmdarvald, skoðunarheimildir, upplýsingamiðlun o.fl.

Árið 2007 samþykkti þing INTOSAI svokallaða Mexíkó-yfirlýsingu sem er eins konar viðbót við Líma-yfirlýsinguna. Auk þessara tveggja grundvallarskjala hefur Ríkisendurskoðun hliðsjón af endurskoðunarstöðlum samtakanna og leiðbeiningum.

 


Leiðbeiningar og eyðublöð

Leiðbeiningar

1. Leiðbeiningar um reikningshald stjórnmálasamtaka og skil þeirra á upplýsingum til Ríkisendurskoðunar (pdf) 135 KB
2. Leiðbeiningar um uppgjör og upplýsingaskyldu þátttakenda í persónukjöri, þ. á m. prófkjöri og forvali (pdf) 116 KB
   - Uppgjörseyðublað frambjóðanda í persónukjöri (xlsx) 30 KB
   - Yfirlýsing frambjóðanda í persónukjöri (pdf) 44 KB
3. Vernd uppljóstrara - Leiðbeiningar til þeirra sem vilja greina frá upplýsingum eða miðla gögnum um brot á lögum eða aðra ámælisverða háttsemi í starfsemi vinnuveitenda Vefsíða
4. Leiðbeiningar um innra eftirlit (2. útgáfa - 2017) (pdf) 843 KB
5. Skjalfesting innra eftirlits fyrir stofnanir í A-hluta (pdf) 177 KB
6. Hagkvæmir og skilvirkir fundir, góðar fundarvenjur (pdf) 140 KB
7. Frjáls og opinn hugbúnaður (pdf) 695 KB
8. Breyting ríkisaðila í hlutafélag. Lagaákvæði og reikningsskilareglur við gerð sérfræðiskýrslu skv. 6. gr. hlutafélagalaga (pdf) 850 KB
9. Vísbendingar um fjármálamisferli (pdf) 101 KB
10. Kennitölur um umsvif og árangur (pdf) 388 KB
11. Áreiðanleiki gagna í upplýsingakerfum (pdf) 418 KB
12. Eignaumsýsla með hugbúnaði og vélbúnaði - GASP (pdf) 398 KB
13. Rafræn viðskipti (pdf) 601 KB
14. Innri endurskoðun (pdf) 229 KB
15. Rekstraröryggi upplýsingakerfa. Innra eftirlit (pdf) 552 KB


Eyðublöð

1. Eyðublað fyrir ársreikning staðfest sjóðs 2023  (xlsx) 32 KB
2. Uppgjörseyðublað frambjóðanda í persónukjöri (xlsx) 44 KB