16.04.2018
Ríkisendurskoðun ítrekar ekki ábendingar til mennta- og menningarmálaráðuneytis frá árinu 2015 sem lutu að samningum ráðuneytisins um æskulýðsrannsóknir. Þar sem ráðuneytið hefur tæpast brugðist við þessum ábendingum með viðhlítandi hætti er það þó hvatt til að huga betur að þeim.
Að mati Ríkisendurskoðunar er æskilegt að mótuð verði heildarstefna um æskulýðsrannsóknir þar sem kveðið er á um markmið slíkra rannsókna, hvernig staðið skuli að þeim, hverju þær skuli skila og hvernig meta skuli árangur þeirra. Eins er ráðuneytið hvatt til að kveða skýrar á um eðli gildandi samnings um æskulýðsrannsóknir með beinni vísun í lög um opinber fjármál. Loks er mikilvægt að viðhaft sé opið og gagnsætt ferli við slík þjónustukaup þótt þau séu ekki auglýst árlega. Vert er að geta þess að síðasti samningur um æskulýðsrannsóknir nær yfir árin 2017-20 og er líklegt að nýr samningur verði gerður að þeim tíma liðnum.