Svar Ríkisendurskoðunar við fyrirspurn Stundarinnar um fjárframlög til Viðreisnar

Almennt

25.08.2017

Ríkisendurskoðun barst þann 22. ágúst sl. fyrirspurn frá Stundinni um hvort félög í eigu og tengd Helga Magnússyni mættu veita stjórnmálasamtökunum Viðreisn framlög.

Spurningar Stundarinnar voru eftirfarandi:

  1. Flokkast Hofgarðar ehf. og Varðberg ehf. sem aðilar tengdir Helga Magnússyni, eiganda félaganna, í skilningi laga um fjármál stjórnmálasamtaka?
  2. Eru Bláa lónið ehf. og N1 ehf, metnir sem aðilar tengdir Helga Magnússyni?
  3. Er það skilningur Ríkisendurskoðunar á lögunum að tengdir aðilar megi ekki greiða samanlagt meira en hámarksframlag samkvæmt lögunum, 400 þúsund kr. eða 800 þúsund kr. við stofnun?
  4. Telur Ríkisendurskoðun að lagaákvæðið „telja skal saman framlög tengdra aðila“ eigi við um mat á hámarksfjárframlagi lögaðila eða eingöngu framsetningu í ársreikningi?
  5. Teljið þið að fjárframlög til Viðreisnar hafi verið lögum samkvæmt?
  6. Verða tekin frekari skref vegna fjárframlaga til Viðreisnar?

Svar Ríkisendurskoðunar er eftirfarandi.

 SVAR VIÐ FYRIRSPURN

Til:           Stundarinnar
Frá:          Ríkisendurskoðun
Dags:
       25.8.2017
Efni:
        Fyrirspurn um fjárframlög til Viðreisnar

Vísað er til fyrirspurnar þinnar frá 22. þ.m. um fjárframlög til Viðreisnar.

Hér á eftir fara svör Ríkisendurskoðunar við spurningunum í sömu röð og þær voru fram settar í skeyti þínu.

  1. Í 5. tölulið 2. mgr. 2. gr. laga 162/2006 er að finna svofellda skilgreiningu á tengdum aðilum:
  • „Lögaðilar þar sem svo háttar til að sami aðili eða sömu aðilar eiga meiri hluta hlutafjár, stofnfjár eða atkvæðisréttar í báðum eða öllum lögaðilunum, enda nemi eignarhlutur hvers þeirra um sig a.m.k. 10% af hlutafé, stofnfé eða atkvæðafjölda í viðkomandi lögaðilum. Sama á við ef einstaklingar eða lögaðilar, sem eiga meiri hluta hlutafjár, stofnfjár eða atkvæðisréttar í lögaðila og hver um sig á  a.m.k. 10% hlutafjár, stofnfjár eða atkvæðisréttar í lögaðilanum, eiga ásamt viðkomandi lögaðila meiri hluta hlutafjár, stofnfjár eða atkvæðisréttar í öðrum lögaðila. Til eignarhluta og atkvæðisréttar einstaklinga í lögaðilum samkvæmt þessum tölulið telst jafnframt eignarhlutur og atkvæðisréttur maka og skyldmenna í beinan legg.“

Samkvæmt 1. málslið 5. töluliðarins teljast því tveir lögaðilar eða fleiri tengdir ef sömu aðilarnir eiga meirihluta í þeim að því gefnu að þeir eigi a.m.k. 10% hlut hver.

Dæmi: Ef félögin A, B og C eiga öll meira en 10% hlut og eru saman eigendur að meirihluta í félagi X og Y, þá teljast X og Y tengdir aðilar. Eigendurnir A, B og C teljast hins vegar ekki tengdir í skilningi laganna.

Á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga verður ekki séð að tengsl Hofgarða ehf. og Varðbergs ehf. við Helga Magnússon falli undir þennan lið skilgreiningarinnar.

Samkvæmt 2. málslið 5. töluliðarins teljast félög tengdir aðilar vegna eignarhalds einstaklinga og/eða félaga í tilteknu félagi, sem aftur á hlut í þriðja félaginu ásamt eigendum sínum.

Dæmi: A , B og C eiga öll meira en 10% hlut í félaginu X.  Saman eiga síðan A, B, C og X meirihluta í félaginu Y. X og Y teljast þá tengdir aðilar í skilningi laganna.

Á sama hátt er á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga ekki hægt að fallast á að áðurnefnd tengsl Hofgarða ehf. og Varðbergs ehf. við Helga Magnússon falli undir þessa skilgreiningu laganna á tengdum aðilum.

Með hliðsjón af framansögðu verður því ekki séð að tengsl Helga og umræddra félaga falli undir ofangreinda skilgreiningu laganna á tengdum aðilum. Því sýnast bæði hann og bæði félögin hafa mátt styrkja Viðreisn í samræmi við ákvæði III. kafla laga nr. 162/2006.

  1. Að því gefnu að spurning þín lúti að því hvort Bláa lónið hf. og N1 hf. séu tengdir aðilar í skilningi laga 162/2006 er því til að svara að fyrst verður að skoða hvort Helgi Magnússon, Varðberg ehf. og/eða Hofgarðar ehf. eigi meirihluta í bæði Bláa lóninu hf. og N1 hf. sem og hvort þessir aðilar hver um sig eigi a.m.k. 10% hlutafjár í Bláa lóninu og N1. Af þeim upplýsingum sem Ríkisendurskoðun býr yfir verður ráðið að Hofgarðar ehf. eigi 6.18% hlut í Bláa lóninu og 2.24% hlut í N1 en á hinn bóginn eru hvorki Helgi né  Varðberg ehf.  skráð fyrir hlut í þessum félögum. Þegar af þessum ástæðum er borin von að þessir aðilar teljist saman vera meirihlutaeigendur í Bláa lóninu eða N1. Þessi félög teljast því ekki tengdir aðilar í skilningi laganna.
     
  2. Samkvæmt lokamálslið 1. mgr. 7. gr. laga 162/2006 er með ótvíræðum hætti mælt svo fyrir að telja skuli saman framlög tengdra aðila. Með tengdum aðilum í þessu sambandi er að sjálfsögðu aðeins átt við þá, sem falla undir skilgreiningu á slíkum aðilum í 5. tölul. 2. mgr. 2. gr. laganna, sbr. svar í lið 1 hér að framan.
     
  3. Að mati Ríkisendurskoðunar felur ákvæði fyrst og síðast í sér leiðsögn og áréttingu á því að séu aðilar tengdir í skilningi laganna þá megi sameiginlegt framlag þeirra ekki fara fram úr hámarksframlagi sem einstökum lögaðila eða einstaklingi er heimilt að veita stjórnmálasamtökum. Aðalatriðið í þessu sambandi er eftir sem áður að tengsl aðila falli undir áðurnefnda skilgreiningu á tengdum aðilum í 5. tölul. 2. mgr. 2. gr. laganna.
     
  4. Enn sem komið er hefur ekkert annað komið í ljós en að svo hafi verið. Tekið skal fram í þessu sambandi að stofnunin kýs að birta útdrátt úr ársreikningum stjórnmálasamtaka um leið og hún hefur gengið úr skugga um að þeir séu að formi til lagi og ekkert í þeim stingi í augu. Tilgangurinn með því að birta þessar upplýsingar sem fyrst er ekki síst sá að auðvelda fjölmiðlum og almenningi að rýna þær og benda á atriði, sem vekja tortryggni eða að ástæða væri að skoða sérstaklega og stuðla þannig að því að ákvæði laganna séu virt.
     
  5. Ef fram koma áreiðanlegar upplýsingar um að fjárframlög einstaklinga eða lögaðila til Viðreisnar séu ekki lögum samkvæmt mun stofnunin að sjálfsögðu bregðast við með viðeigandi hætti.