Ríkisendurskoðun rekin með tekjuafgangi

Almennt

16.06.2017

Ný lög um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga tóku gildi þann 1. janúar 2017. Sveinn Arason ríkisendurskoðandi segir í ávarpi nýrrar ársskýrslu Ríkisendurskoðunar að ástæða sé til að gleðjast yfir þeim áfanga og að hann vonist til að ný lög verði Ríkisendurskoðun og Alþingi til farsældar og auki á skilvirkni, árangur og gagnsæi í starfi hennar.

Ríkisendurskoðandi fjallar einnig um ákvörðun þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra að tilnefna bróður ríkisendurskoðanda til að fara með formennsku í félaginu Lindarhvoll ehf., sem stofnað var til að annast umsýslu og sölu á eignum sem leiddu af stöðugleikaframlögum. Ráðuneytinu var bent á að þessi tilnefning leiddi til þess að ríkisendurskoðandi væri vanhæfur til að sinna lögboðnu eftirliti með félaginu en ráðherra kaus að gera ekki breytingar á stjórn félagsins. Ríkisendurskoðandi gagnrýnir þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra fyrir að taka ekki tillit til lögbundinna verkefna ríkisendurskoðanda og þar með Ríkisendurskoðunar með þessari ákvörðun sinni.

Engar stórvægilegar breytingar urðu á verkefnum stofnunarinnar milli ára. Endurskoðunarsvið lauk við 180 endurskoðunarverkefni og stjórnsýslusvið lauk við 29 stjórnsýsluúttektir á árinu. Gefnar voru út skýrslur um eftirlit með framkvæmd fjárlaga, skil á ársreikningum staðfestra sjóða, kirkjugarða og sókna og birtir útdrættir úr ársreikningum stjórnmálasamtaka, frambjóðenda til forsetakjörs og frambjóðenda vegna prófkjara fyrir alþingiskosningar 2016. Utan endurskoðunarverkefna voru allar skýrslur stofnunarinnar birtar á vef hennar www.rikisendurskodun.is. Mestan áhuga lesenda vöktu skýrsla um eignasölu Landsbankans sem birtist í nóvember og upplýsingar um fjármál frambjóðenda.

Ríkisendurskoðun var rekin með 12,5 m.kr. tekjuafgangi á árinu 2016. Fjárveitingar ársins námu 578,2 m.kr. og hækkuðu frá fyrra ári um 78,7 m.kr. eða 15,8%. Laun og launatengd gjöld námu 539.7 m.kr. og hækkuðu um 83,4 m.kr. milli ára. Ársverkum fjölgaði um 2,2. Hrein gjöld hækkuðu um 76,5 m.kr. milli ára og námu óráðstafaðar fjárheimildir í lok árs 2016 47,0 m.kr.

Auk umfjöllunar um störf Ríkisendurskoðunar á síðasta ári má í ársskýrslunni finna þrjár greinar eftir starfsmenn stofnunarinnar. Elísabet Stefánsdóttir, sérfræðingur á stjórnsýslusviði, skrifar um mikilvægi umhverfisendurskoðunar í greininni Skref til betra umhverfis. Albert Ólafsson, deildarstjóri á endurskoðunarsviði skrifar um hugsanlegar breytingar hjá hinum opinbera með tilkomu gervigreindar í greininni Möguleg áhrif gervigreindar á starfsemi ríkisins. Að síðustu fjallar Svanborg Sigmarsdóttir, upplýsinga- og alþjóðafulltrúi, um ný lög um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga og hvernig þau kallast á við alþjóðlega staðla ríkisendurskoðana (INTOSAI) í greininni Sjálfstæði, ábyrg og gagnsæi.

Sjá nánar ársskýrslu embættisins