21.04.2017
Á undanförnum vikum hefur spunnist nokkur umræða í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum um skýrslu Ríkisendurskoðunar Eftirlit Tryggingastofnunar með bótagreiðslum sem unnin var að frumkvæði Ríkisendurskoðunar og kom út í febrúar 2013. Stofnunin fylgdi þessari skýrslu eftir í maí 2016 og lokaði þar málinu fyrir sitt leyti með því að ítreka enga ábendingu. Áðurnefnd umræða um skýrsluna í mars og apríl 2017 kemur því nokkuð á óvart.
Ríkisendurskoðun fagnar málefnalegri og uppbyggilegri umfjöllun um skýrslur sínar og er reiðubúin að viðurkenna hugsanlega annmarka á þeim eða mistök við gerð þeirra. Stofnunin leitast enda við að vinna skýrslur sínar á faglegan hátt og í samræmi við viðurkenndar kröfur um skýrslur af þessu tagi. Allar réttmætar athugasemdir sem lúta að þeim eru teknar alvarlega og sendir stofnunin hlutaðeigandi aðilum alltaf skýrsludrög til umsagnar og býður þeim að koma á framfæri athugasemdum eða leiðréttingum við þau til að tryggja að endanlegar skýrslur séu efnislega réttar. Það var einnig gert við vinnslu skýrslunnar Eftirlit Tryggingastofnunar með bótagreiðslum.
Þetta kom því miður ekki í veg fyrir viss mistök við gerð skýrslunnar og kynningu niðurstaðna hennar. Meginmistökin felast annars vegar í því að hafa ekki tilgreint sérstaklega í skýrslunni hvernig staðið var að tiltekinni úttekt sem Ríkisendurskoðun vísar í á umfangi hugsanlegra bótasvika og ofgreiðslna í Danmörku árið 2011 og hins vegar fyrir að hafa þýtt ranglega eitt hugtak sem þar kemur fram. Ríkisendurskoðun biðst velvirðingar á þeim mistökum. Einnig þykir stofnuninni miður að í fréttatilkynningu hennar um skýrsluna hafi ekki verið sleginn sami skýri varnagli og í skýrslunni sjálfri um hugsanlegt umfang bótasvika hér á landi ef það væri sambærilegt við umfang bótasvika í Danmörku, eins og það var áætlað í áðurnefndri úttekt.
Að öðru leyti stendur Ríkisendurskoðun við meginniðurstöður skýrslunnar og ábendingarnar sem þar voru settar fram. Stofnunin vísar í þessu sambandi sérstaklega á bug að niðurstöður skýrslunnar litist af persónulegum skoðunum skýrsluhöfunda eða jafnvel pólitískum sjónarmiðum, eins og gefið hefur verið í skyn. Stofnunin ber á hinn bóginn ekki ábyrgð á hvernig almenningur, fjölmiðlar eða stjórnmálamenn lásu og túlkuðu skýrsluna á sínum tíma.
Ríkisendurskoðun telur einnig rétt að vekja athygli á því að nýleg umfjöllun um skýrsluna hefur einungis snúist um einn hluta hennar, þ.e. mögulegt umfang bótasvika hér á landi. Meginmarkmið úttektarinnar var hins vegar að kanna hvort eftirlit Tryggingastofnunar með bóta‐ og lífeyrisgreiðslum væri fullnægjandi og hvort lögbundnar eftirlitsheimildir hennar stæðust samanburð við lagaheimildir systurstofnana hennar í nálægum löndum. Við þessa umfjöllun var byggt á upplýsingum og skýrslum frá fjölmörgum innlendum og erlendum aðilum og athugun á fyrirkomulagi eftirlits Tryggingastofnunar með bótagreiðslum. Það fer því víðs fjarri að Ríkisendurskoðun byggi einungis eða aðallega á einni danskri úttekt sem sætt hefur gagnrýni.
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar var m.a. bent á að árið 2011 námu heildarútgjöld Tryggingastofnunar rúmlega 123 milljörðum króna og tengdust þau að langmestu leyti ýmiss konar greiðslum til um 120 þúsund einstaklinga. Alls sinntu þrír til fjórir starfsmenn Tryggingastofnunar eftirliti með þessum greiðslum í tveimur til þremur stöðugildum með það að markmiði að koma í veg fyrir rangar afgreiðslur, mistök og svik og stuðla þannig að því að opinberir fjármunir rynnu til þeirra sem eiga lögum samkvæmt rétt á greiðslum.
Að mati Ríkisendurskoðunar var þetta eftirlit ófullnægjandi og var velferðarráðuneyti m.a. hvatt til að tryggja nauðsynlegt fjármagn til að efla það. Jafnframt hvatti Ríkisendurskoðun ráðuneytið til að skýra lögbundnar eftirlitsheimildir stofnunarinnar og horfa í því samhengi til nágrannalandanna. Sömuleiðis var Tryggingastofnun hvött til að efla samtímaeftirlit sitt og leiðbeiningarhlutverk og beita meira en gert hefði verið fyrirbyggjandi aðgerðum og forvörnum. Eins var stofnunin hvött til að greina umfang bótasvika og áhættu eftir bótaflokkum til að lágmarka hættu á bótasvikum og mistökum við bótagreiðslur. Slík greining hafði þá aldrei verið gerð.
Tekið skal fram að engin þessara ábendinga byggir á hinni umræddu dönsku úttekt. Eins leggur Ríkisendurskoðun áherslu á að skýrsla hennar beinist á engan hátt gegn öryrkjum og raunar kemur orðið öryrki hvergi fyrir í henni. Í skýrslunni tekur Ríkisendurskoðun ekki heldur neina afstöðu til fjárhæða bóta enda er það ekki hlutverk hennar. Þá tekur stofnunin ekki afstöðu til flokka bóta eða bótaþega. Í skýrslunni er einungis fjallað um greiðslu- og eftirlitskerfi Tryggingastofnunar og þær eftirlitsheimildir sem hún hefur og þarf að hafa óháð bótaflokkum til að geta sinnt því starfi sínu að greiða réttar bætur á réttum tíma.