06.04.2017
Að mati Ríkisendurskoðunar hefur mennta- og menningarmálaráðuneyti brugðist við ábendingu stofnunarinnar í skýrslunni Samningar um símenntunarmiðstöðvar frá 2014.
Ráðuneytið hefur tekið afstöðu til þeirra tillagna sem fram komu í úttekt Capacent á framhaldsfræðslukerfinu og hrundið af stað vinnu sem tekur m.a. tillit til þeirra. Stofnunin telur því ekki ástæðu til að ítreka ábendinguna. Ráðuneytið er þó hvatt til að vinna áfram að úrbótum á sviði símenntunar og framhaldsfræðslu.
Unnið er að því innan mennta- og menningarmálaráðuneytis að útbúa reiknireglu til að tryggja jafnræði við skiptingu fjár til símenntunarmiðstöðva. Ráðuneytið gerir ráð fyrir að tillögur um breytingar á lögum um framhaldsfræðslu verði lagðar fram innan árs og að innan tveggja ára verði unnin úttekt á framkvæmd og árangri náms- og starfsráðgjafar og raunfærnimati sem fjármagnað hefur verið af Fræðslusjóði. Þá er eitt af markmiðum í fjármálaáætlun ríkisins 2017-2021 að framhaldsfræðslu verði sett aðalnámskrá eða almenn námskrá.