Ríkisendurskoðun fagnar niðurstöðu rannsóknarnefndar Alþingis

Almennt

03.04.2017

Ríkisendurskoðun fagnar skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, um þátttöku Hauck & Aufhäuser í einkavæðingu Búnaðarbanka Íslands hf. árið 2003 og þeirri skýru niðurstöðu sem rannsóknarnefndin kemst að í krafti aðgangs nefndarinnar að tölvupóstum sem sýndu fram á mikilvæga baksamninga sem haldið hafði verið leyndum. Það er alltaf mikilvægt að draga sannleikann fram.

Vegna umræðu um hvort eftirlitsstofnanir, og þar með talin Ríkisendurskoðun, hefðu ekki átt að draga þessi gögn fram fyrr er rétt að benda á að þeir tölvupóstar sem rannsóknarnefnd Alþingis byggir á, voru ekki aðgengilegir fyrr en eftir 12. apríl 2010. Hefðu póstarnir verið aðgengilegir fyrir þann tíma, telur Ríkisendurskoðun að um þá hefði verið fjallað í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna. Í því ljósi er rétt að benda á að í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, sem birt var í síðustu viku segir „rétt [er] að hafa í huga að eftir að rannsóknarnefnd Alþingis lauk störfum 12. apríl 2010 hefur umtalsvert magn gagna komið í vörslur ofangreindra stofnana og aðila[1] sem varpað hafa skýrara ljósi á þau atvik sem þessi rannsókn tekur til.“ (bls. 12)

Einnig að rétt að benda á að þau gögn sem nú hafa verið dregin fram í dagsljósið, þ.e. tölvupóstarnir, eru ekki gögn af því tagi sem Ríkisendurskoðun gat krafist í störfum sínum á grundvelli 6., 7. og 10. gr. áðurgildandi laga um Ríkisendurskoðun nr. 86/1997. Lögbundið hlutverk stofnunarinnar takmarkast við endurskoðun reikninga ríkisins og eftirlit með fjárreiðum þess. Rannsóknarheimildir hennar takmarkast á sama hátt við þetta hlutverk hennar og ná því aðeins til ríkisaðila. Um takmarkaðar rannsóknarheimildir stofnunarinnar er í þessu sambandi hægt að benda á að í bréfi umboðsmanns Alþingis til stjórnsýslu og eftirlitsnefndar Alþingis frá 19. maí sl. kemur skýrt fram að hann teldi ljóst að hvorki lögbundnar starfsheimildir embættis hans né Ríkisendurskoðunar dygðu til að afla þeirra gagna er þær upplýsingar, sem hann hefði fengið, vísuðu til og jafnframt, eftir því sem þörf krefði, til að afla upplýsinga og skýringa hjá fyrirsvarsmönnum þeirra lögaðila sem kæmu við sögu í málinu.

Fyrirliggjandi gögn árið 2006
Ríkisendurskoðun telur ekki ástæðu til að draga til baka það mat sitt að gögn þau sem Vilhjálmur Bjarnason afhenti Ríkisendurskoðun 22. febrúar 2006 séu ekki nægjanleg til að sýna fram að Hauck & Aufhäuser hafi ekki verið raunverulegur eigandi Eglu hf. Breytir engu í því sambandi þó rannsóknarnefnd Alþingis hafi nú á grundvelli upplýsinga og ábendinga, sem bárust umboðsmanni Alþingis sl. vor undir þeim formerkjum að hann gætti trúnaðar um uppruna þeirra, og á grundvelli víðtækra rannsóknarheimilda sinna, sýnt fram á að gögn þau sem Ríkisendurskoðun aflaði sér í kjölfarið hafi verið lögð fram í blekkingarskyni.

Á fundinum með Ríkisendurskoðun gerði Vilhjálmur grein fyrir þeirri skoðun sinni að þar sem ekki væri hægt að lesa það úr ársreikningi Hauck & Aufhäuser fyrir árið 2003 væri útilokað að þýski bankinn hefði verið eigandi að helmingshlut í Eglu hf. Þá hefði bankinn ekki virt samræmdar reikningsskilareglur Evrópusambandsins sem kveða á um að færa eigi eignarhluti í félögum á borð við Eglu hf. samkvæmt s.k. hlutdeildaraðferð. Að auki sagðist hann hafa upplýsingar um það bankinn hafi ekki kynnt viðeigandi eftirlitsaðilum í Þýskalandi um fjárfestingu sína í Eglu hf. (Sjá fylgiskjöl nr. 1-4). Að auki sagðist hann búa yfir frekari upplýsingum um málið, en þar sem þær voru óformlegar gerði hann ekki nánari grein fyrir þeim.

Ríkisendurskoðun taldi sig ekki búa ekki yfir nægilegri sérfræðiþekkingu á þessu sviði og því treysti hún sér ekki til að taka strax afstöðu til þessarar niðurstöðu Vilhjálms. Þess í stað óskaði hún eftir sérfræðiáliti Stefáns Svavarssonar, endurskoðanda og þáverandi dósents við HR á því hvort unnt væri að fullyrða með hliðsjón af upplýsingum í reikningsskilum þýska bankans að hann hafi ekki fjárfest í Eglu hf. Niðurstaða Stefáns var á þá lund að hvorki væri með því að rýna einungis reikningsskil þýska bankans hægt að fullyrða að hann hafi fjárfest eða ekki fjárfest í Eglu hf á árinu 2003. Í áliti sínu tekur Stefán jafnframt fram að í reikningsskilum bankans komi fram að hann skrái fjárfestingu í verðbréfum á kostnaðarverði eða miðað við regluna um kostnaðarverð eða markaðsverð, hvort sem lægra reynist. Þær reglur eru í samræmi við ákvæði 4. tilskipunar ESB um skráningu langtíma- og skammtímafjárfestingar í verðbréfum.

Jafnframt freistaði stofunin þess að afla frekari gagna í því skyni að varpa skýrara ljósi á aðkomu Hauck & Aufhäuser að kaupunum. Því var fundað með Guðmundi Hjaltasyni, þáverandi framkvæmdastjóra Eglu hf og Kristni Hallgrímssyni, lögfræðingi Eglu hf hinn 24. febrúar 2006 og afhentu þeir Ríkisendurskoðun margvísleg gögn um Eglu og aðild þýska bankans að Eglu hf. Einnig var óskað eftir staðfestingu, frá Hauck & Aufhäuser, á kaupum þeirra á hlutabréfum í Eglu hf og að bankinn hafi fært þær í bókhaldi sínu í samræmi við þýsk lög og reglur. Afrit af þessum gögnum má finna á heimasíðu Ríkisendurskoðunar. (sjá Samantekt um fund Vilhjálms Bjarnasonar með Ríkisendurskoðun, fylgiskjöl nr. 1-29, fylgiskjöl nr. 30-46)

Sérstök athygli er vakin á eftirfarandi gögnum:

  1. Yfirlýsing Hauck & Aufhäuser frá 27. júní 2005 þar sem hann greinir frá aðkomu sinni sem hluthafa í Eglu hf. að kaupum á framangreindum hlut ríkisins í Búnaðarbankanum jafnframt því sem hann lýsir því yfir að umrædd fjárfesting í félaginu hafi verið færð til bókar í reikningum bankans. (fsk. 2)
  2. Skrifleg staðfesting lögfræðideildar Hauck & Aufhäuser dags. 3. mars 2006, undirrituð af Martin Zeil og Robert Sprogies um að bankinn hafi átt hlutabréfin í Eglu hf og að þau hafi verið færð í bókhaldi hans frá janúar 2003 til júní 2005. (fsk. 41).
  3. Skrifleg staðfesting KPMG í Þýskalandi, sem annaðist endurskoðun reikninga bankans um að hlutabréfin í Eglu hf. hafi verið færð í bókhaldi bankans í samræmi við þýsk lagafyrirmæli og aðrar reglur þar í landi. (fsk. 42)

Án upplýsinga um þá baksamninga sem rannsóknarnefnd Alþingis upplýsti um í síðustu viku hafði Ríkisendurskoðun ekki möguleika á því árið 2006 að upplýsa um blekkingu og svik. Líkt og segir í skýrslu rannsóknarnefndarinnar (bls. 98) „Af baksamningunum leiddi að eignarhald Hauck & Aufhäuser á hlutum í Eglu hf. var frá upphafi aðeins tímabundið og takmarkað, og það að slíku marki að eignarhaldið var í raun bara að nafni til.“

Gagnrýni á einkavæðingaferlið frá 2003
Hvað varðar skýrslu Ríkisendurskoðunar frá því í desember 2003 Einkavæðing helstu ríkisfyrirtækja árin 1998-2003, var reynt að meta hvort meginmarkmið stjórnvalda með einkavæðingu hafi náðst, hvort Framkvæmdanefnd um einkavæðingu hafi fylgt settum reglum, og reynt að leggja mat á tímasetningu sölu, verðmætamat, söluaðferð, mat á kauptilboðum og kostnaði og tekjum við einkavæðingu. Sú gagnrýni sem þar kemur fram beinist að ríkinu sem seljanda en ekki var reynt að leggja mat á kaupendur í þeirri skýrslu. Sú gagnrýni sem kom þar fram um einkavæðingu Búnaðarbankans stendur enn.

Í þeirri skýrslu er það dregið í efa að markmiði ríkisins um að ríkið fái hámarksverð fyrir eign sína í Landsbanka Íslands og Búnaðarbankanum hafi náðst, gengi Búnaðarbankans hafi verið óverulega hærra en almennt gengi á markaðnum, þrátt fyrir að um sölu á ráðandi hlut væri að ræða. Þá var það gagnrýnt að auglýsa ráðandi hlut til sölu á báðum bönkum á sama tíma og sérstaklega var tímasetning á sölu á Búnaðarbankanum gagnrýnd, þar sem gengi á bréfum í bankanum höfðu lækkað verulega í ársbyrjun 2001. Einnig var gagnrýnt að í ljósi áherslu á fjárhagslega getu kaupenda hafi hvorki Landsbankinn né Búnaðarbankinn verið staðgreiddir

[1] Vísað er til upplýsinga úr kerfum Arion banka hf., Deloitte ehf., Fjármálaeftirlitsins, forsætisráðuneytisins, héraðssaksóknara, Íslandsbanka hf., Kauphallar Íslands hf., Kaupþings ehf. Nasdaq verðbréfamiðstöðvar hf. og Ríkisendurskoðunar.