Ríkisreikningur 2015 endurskoðaður
Endurskoðunarskýrsla
19.12.2016
Eitt meginverkefna Ríkisendurskoðunar samkvæmt lögum er að endurskoða ríkisreikning og reikninga þeirra aðila sem hafa með höndum rekstur eða fjárvörslu á vegum ríkisins. Gerð er grein fyrir framkvæmd og niðurstöðum þessarar vinnu í árlegri skýrslu til Alþingis.
Í skýrslunni Endurskoðun ríkisreiknings 2015 er bent á nokkur atriði sem Ríkisendurskoðun telur að betur megi fara í reikningsskilum og fjármálastjórn ríkisins. Meðal helstu athugasemda og ábendinga eru:
- Líkt og á liðnum árum gerir Ríkisendurskoðun athugasemd við það að uppgjör ríkisreiknings víki frá almennum reikningsskilareglum. Vegna meðferðar á verð- og gengisuppfærslu lána í árslok er niðurstaða rekstrarreiknings ríkisins 72,9 m.kr. betri en ef reglum ársreikningslaga hefði verið fylgt. Þetta hefur ekki áhrif á eiginfjárstöðu ríkissjóðs.
- Ríkisendurskoðun telur öll rök benda til þess að framlag til Alþjóðaframfarastofnunarinnar (IDA) eigi ekki að flokka sem stofnfjárframlag heldur sem rekstrarframlag sem beri að gjaldfæra í ríkisreikningi.
- Að mati Ríkisendurskoðunar bar í árslok 2015 að færa í bókhald ríkisins skuldbindingu vegna stofnaðildar að Innviðafjárfestingabanka Asíu að fjárhæð 457 m.kr.
- Samþykkt hefur verið að hækka iðgjöld launagreiðenda í A-deild LSR í 15,1% frá og með 1. janúar 2017. Heildariðgjald til A-deildar LSR verður þá 19,1% í samræmi við ábendingu tryggingastærðfræðings til að staða deildarinnar nái jafnvægi.
- Eftir að ríkisreikningur kom út gaf ríkisstjórn út yfirlýsingu þess efnis að fyrri yfirlýsingar um ábyrgð ríkissjóðs á innstæðum væru fallnar úr gildi.
Heildarútgjöld ríkissjóðs árið 2015 námu um 667 milljörðum króna en tekjurnar um 687 milljörðum króna. Bókfærðar eignir ríkissjóðs námu 1.011 milljörðum króna og lækkuðu um 156 milljarða á milli ára. Heildarskuldir ríkissjóðs námu 1.924 milljörðum króna og lækkuðu um 103 milljarða á milli ára. Þar af hækkuðu lífeyrisskuldbindingar um 73 milljarða. Eigið fé ríkissjóðs var í árslok 2015 neikvætt um 913 milljarða.
Sjá nánar