12.12.2016
Ríkisendurskoðun telur að framtíðarsýn stjórnvalda um hvernig eigi að tryggja og bæta loftgæði hér á landi sé ófullnægjandi. Hvorki hefur verið mörkuð stefna né sett fram tímasett aðgerðaáætlun í málaflokknum í samræmi við lög um hollustuhætti og mengunarvarnir.
Samkvæmt þeim lögum ber umhverfisráðherra að leggja fram almenna áætlun um loftgæði til 12 ára í senn. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar Loftgæði á Íslandi: Umhverfi og heilsa. Ríkisendurskoðun hvetur umhverfis- og auðlindaráðuneyti til að sinna málefnum loftgæða með virkari hætti og tryggja að unnið sé að stefnumótun og áætlanagerð um loftgæði í samræmi við lög.
Heilbrigðisnefndum sveitarfélaga ber einnig að gefa út áætlun um bætt loftgæði og hafa til reiðu viðbragðsáætlanir sem taka til skammtímaaðgerða. Í spurningakönnun sem Ríkisendurskoðun lagði fyrir heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna kom fram að þeirri áætlanagerð væri víða áfátt. Ríkisendurskoðun telur brýnt að Umhverfisstofnun gefi út handbók fyrir sveitarfélög um aðgerðaráætlanir og framkvæmdir á þeirra vegum er varða mengunarefni í lofti. Mikilvægt sé að stofnunin sinni betur leiðbeiningar- og samræmingarhlutverki sínu gagnvart heilbrigðisnefndum sveitarfélaga og stuðli að samhæfðri áætlanagerð þvert á stjórnsýslustig og á landsvísu. Þá hvetur Ríkisendurskoðun Umhverfisstofnun til að sinna betur útgáfu á efni um stöðu og þróun loftgæða á Íslandi og miðla þeim markvisst til almennings.
Loftgæði á Íslandi eru almennt talin mikil og hafa íslensk stjórnvöld tekið þátt í alþjóðlegri samvinnu um að takmarka eða draga úr losun mengandi efna út í andrúmsloftið. Markmið slíkra aðgerða er að bæta lýðheilsu. Stjórnvöld hafa þó ekki beitt sér fyrir að áhrif loftmengunar á heilsu almennings séu rannsökuð eða mæld og því ekki hægt að fullyrða um sjúkdóma- eða dánartíðni af völdum loftmengunar á Íslandi. Ein helsta ógnin felst í náttúruhamförum, t.d. eldgosum. Samhliða fjölgun jarðvarmavirkjana hefur losun brennisteinssambanda aukist mikið en styrkur þeirra þó haldist innan heilsuverndarmarka. Ársmeðaltal köfnunarefnisdíóxíðs í andrúmslofti hefur einnig verið innan heilsuverndarmarka en fjölgun dísilbíla hefur ógnað þeirri þróun. Erfiðast hefur reynst að halda svifryki innan viðmiðunarmarka. Með nýrri reglugerð, sem tekur mið af tilskipunum Evrópusambandsins, mega sólarhringsgildi svifryks nú fara 35 sinnum yfir heilsuverndarmörk á ári en áður var miðað við sjö skipti. Ólíklegt er að styrkurinn muni mælast svo oft yfir heilsuverndarmörkum, miðað við óbreytt ástand.