28.11.2016
Erfitt er að meta árangur embættis sérstaks saksóknara, þegar litið er til málsmeðferðar, nýtingar fjármuna og skilvirkni á starfstíma þess árin 2009-2015.
Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar um embætti Sérstaks saksóknara. Engin árangursmarkmið eða önnur mælanleg markmið voru sett fyrir embættið. Þá er ógerlegt að meta fjölda vinnustunda sem embættið varði í einstök mál og kostnað vegna þeirra þar sem tímaskráning var ófullnægjandi. Að mati Ríkisendurskoðunar væri æskilegt að þróa árangursviðmið fyrir stofnanir réttarvörslukerfisins. Gæta þarf þó að því að slík viðmið ógni ekki sjálfstæði stofnananna eða hafi óæskileg áhrif á málsmeðferð þeirra og ákvarðanir.
Embætti sérstaks saksóknara afgreiddi alls 672 mál á starfstíma sínum en 134 mál fluttust til nýstofnaðs embættis héraðssaksóknara. Meðferð þeirra mála sem tengdust efnagshruninu, alls 208, reyndist bæði tímafrek og kostnaðarsöm vegna eðlis þeirra. Alls voru 94 mál í vinnslu í meira en tvö ár, þar af 45 í lengri tíma en fjögur ár. Þar sem embætti sérstaks saksóknara tók ekki upp verkbókhald fyrr en í byrjun árs 2011 er ekki hægt að meta hve margar vinnustundir fóru í hvert mál. Ríkisendurskoðun telur rétt að þróa LÖKE, málaskrárkerfi lögreglunnar, á þann hátt að hægt sé að sundurgreina einstaka þætti málsmeðferðar. Einnig telur Ríkisendurskoðun eðlilegt að saksóknarar færi verkbókhald eins og aðrir starfsmenn ákæruvaldsins.
Ljóst er að flutningur efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra til embættis sérstaks saksóknara tafði verulega önnur mál hjá embættinu. Þá hafði frestun þess í tvígang að leggja niður embætti sérstaks saksóknara óæskileg áhrif á rekstur og mannauð embættisins. Vegna þess hve seint var skipað í embætti héraðssaksóknara tafðist markviss undirbúningur að stofnun embættisins, þar sem engin embættismaður hafði umboð til að taka ákvarðanir þar um eða veita upplýsingar um það. Ríkisendurskoðun hvetur innanríkisráðuneyti til að vanda undirbúning og framkvæmd flutnings málaflokka og sameiningar stofnana.