Ávinningur af samruna samgöngustofnana óljós

Skýrsla til Alþingis

01.11.2016

Ríkisendurskoðun telur erfitt að meta þann ávinning sem hlaust af samruna Vegagerðarinnar og Siglingastofnunar árið 2013.

Árið 2013 voru með samruna nokkurra stofnana á sviði samgöngumála myndaðar tvær stofnanir, annars vegar framkvæmdastofnun undir heiti Vegagerðarinnar og hins vegar stjórnsýslustofnun samgöngumála undir heiti Samgöngustofu. Samruna þeirrar starfsemi sem heyrir undir Vegagerðina er ekki lokið og gagnrýnir Ríkisendurskoðun í nýrri skýrslu hve lengi hefur dregist að ganga frá framtíðarskipulagi hennar. Innanríkisráðuneyti er hvatt til að ljúka þeirri vinnu, í samstarfi við Vegagerðina, enda er um að ræða forsendu þess að yfirlýstum markmiðum um fjárhagslegan og faglegan ávinning stofnunarinnar verði náð.

Í endurskoðunarbréfum sínum vegna fjárhagsendurskoðunar hefur Ríkisendurskoðun bent á að bundið eigið fé stofnana megi ekki vera neikvætt, eins og raunin hefur verið hjá Vegagerðinni, og hvetur innanríkisráðuneyti til að stuðla að umbótum þar á.

Innanríkisráðuneyti er einnig hvatt til að bæta verklag við gerð og framsetningu samgönguáætlunar en engin fjögurra ára áætlun var í gildi frá 2015 og fram á haust 2016. Þá var tólf ára áætlun síðast samþykkt í júní 2012 en innanríkisráðherra ber að leggja fram slíka áætlun sem tillögu til þingsályktunar á fjögurra ára fresti.

Ríkisendurskoðun hvetur Vegagerðina til að auka formfestu í starfsemi innri endurskoðunar og styrkja starfsemi innri endurskoðunardeildar sinnar. Eins er Vegagerðin hvött til að ljúka endurskoðun verklagsreglna í gæðakerfi sínu og auka vægi gæðamála innan stofnunarinnar.

Sjá nánar