Framkvæmd fjárlaga á fyrri árshelmingi 2016

Skýrsla til Alþingis

31.10.2016

Greiðsluafkoma ríkissjóðs á fyrri árshelmingi 2016 var 400,3 ma.kr. betri en gert hafði verið ráð fyrir í áætlun tímabilsins.

Reiknað var með að greiðsluafkoman yrði neikvæð um 18,5 ma.kr. en hún var hins vegar jákvæð um 381,8 ma.kr. Munar þar mestu um stöðugleikaframlög frá þrotabúum fjármálastofnana að fjárhæð 394,1 ma.kr.

Ríkisendurskoðun gagnrýnir að einungis hluti stöðugleikaframlagana, alls 68,0 ma.kr., sé talinn með í flestum yfirlitum mánaðaruppgjöra ríkissjóðs. Stofnunin telur eðlilegra að taka framlögin með að fullu eða halda þeim alfarið utan við samanburðinn. Væri þessum framlögum haldið utan við greiðsluuppgjörið væri afkoma ríkissjóðs á fyrri hluta ársins svipuð og á sama tíma árið 2015.

Reynsla undanfarinna ára sýnir að um þriðjungur fjárlagaliða fer fram úr fjárheimild í lok árs og bendir ýmislegt til að sú verði einnig raunin í ár. Í sumum tilvikum má fullyrða að það hafi legið fyrir í byrjun árs að grípa þyrfti til ráðstafana. Í fjáraukalögum, sem samþykkt voru 12. október,  var ekki nema að hluta tekið á fyrirliggjandi vanda stofnana sem stefna í að vera með útgjöld umfram heimildir í lok árs án þess þó að lagt hafi verið fyrir viðkomandi stofnanir að draga saman útgjöld.

Ríkisendurskoðun telur að ekki sé með fullnægjandi hætti tekið á því hvernig stofnunum er ætlað að bregðast við uppsöfnuðum halla. Af svörum ráðuneyta má ráða að í mörgum tilfellum sé ekki ætlast til eða gengist eftir því að stofnanir dragi saman starfsemi til að mæta slíkum vanda. Það fyrirkomulag að ætla stofnunum að greiða upp eldri halla er því ekki að virka þegar  þannig háttar til.

Sjá nánar