Skil á ársreikningum stjórnmálasamtaka

Stjórnmálastarfsemi

20.10.2016

Samkvæmt 9. gr. laga um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra nr. 162/2006 ber stjórnmálasamtökum, fyrir 1. október ár hvert, að skila Ríkisendurskoðun ársreikningum sínum fyrir síðastliðið ár, árituðum af endurskoðendum. Stofnunin skal í kjölfarið, eins fljótt og unnt er, birta útdrátt úr ársreikningum þeirra með samræmdum hætti.

Tvenn stjórnmálasamtök, Dögun – stjórnmálasamtök og Flokkur heimilanna, sem bæði þáðu framlög úr ríkisjóði á þessu ári, hafa enn ekki skilað ársreikningi sínum. Vakin hefur verið athygli beggja þessara samtaka á því að þau geti þurft að sæta sektum og að það sé skilyrði fyri rúthlutun á fé úr ríkissjóði til stjórnmálasamtaka að viðkomandi samtök hafi áður fullnægt upplýsingaskyldu sinni.

Eftirtalin stjórnmálasamtök skiluðu árituðum reikningum til Ríkisendurskoðunar á réttum tíma:

  • Björt framtíð
  • Fólkið í bænum
  • Framsóknarflokkurinn
  • L-listinn, bæjarlistinn á Akureyri
  • Píratar
  • Samfylkingin
  • Sjálfstæðisflokkurinn
  • Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Stofnunin hefur þegar farið yfir ársreikninga Bjartar framtíðar, Framsóknarflokksins, L-listans, Pírata, Samfylkingarinnar, Sjálfstæðisflokksins og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs og hefur útdráttur úr þeim nú verið birtur á hér á heimsíðunni.

(Ath. þann 7. nóvember birti Ríkisendurskoðun útdrátt úr ársreikningi Dögunar)